• fim. 28. maí 2009
  • Pistlar

Mætum öll í bláu

Ólafur Jóhannesson fagnar sigri gegn Makedóníu
Oli_Jo_2008

Það hefur löngum verið siður stuðningsmanna knattspyrnuliða að klæðast litum sinna liða á kappleikjum.  Þetta þekkjum við vel frá knattspyrnuleikjum félagsliða, hér á landi sem annars staðar.  Þessi siður er enn sterkari þegar kemur að landsliðum og sést best þegar við sjáum sýnt frá leikjum í stórmótum eins og úrslitakeppni HM eða EM.  Þar sameinast stuðningsmenn allra félagsliða í sínu landi undir merkjum þjóðarinnar, í sameiginlegum litum.  Hollendingar eru gott dæmi um þetta, enda er það skylda hvers Hollendings sem mætir á landsleik að klæðast einhverju appelsínugulu, hvort sem það er treyja, trefill, húfa eða eitthvað annað. 

Laugardaginn 6. júní mætum við Íslendingar Hollendingum á Laugardalsvellinum.  Við verðum að taka gestina til fyrirmyndar og fella þá á eigin bragði.  Við eigum öll að mæta á völlinn í einhverju bláu.  Það skiptir engu máli hvað það er.  Það getur verið gamall landsliðsbúningur eða bara blár bolur sem þið áttuð inni í skáp, blá húfa, blár trefill, eða hvað sem er.  Þennan dag á blár að vera sá litur sem allir klæðast.  Stúkan á að vera full af fólki sem klæðist bláu, vegna þess að íslenska landsliðið leikur í bláum búningum, og við erum öll saman í íslenska landsliðinu.  Stuðningsmenn allra liða sameinist undir merkjum Íslands, stöndum saman og gerum stúkuna að bláu hafi á þessum mikilvæga landsleik. 

Strákarnir treysta á öflugan stuðning og ef áhorfendaskarinn er klæddur í sama lit og liðið okkar leikur í, þá mun það vafalaust berja strákunum okkar baráttuanda í brjóst.

Ég hlakka til að sjá ykkur á vellinum.

Áfram Ísland!

Ólafur Jóhannesson, landsliðsþjálfari

E.S.  Ef þið komist ekki á völlinn og horfið á leikinn í sjónvarpinu heima, verið þá samt í bláu.  Við vitum af ykkur.