Hópurinn valinn fyrir Holland og Makedóníu
Á blaðamannafundi í höfuðstöðvum KSÍ í dag voru tilkynntir landsliðshópar hjá A landsliði karla og U21 karla. Hjá A landsliði karla eru framundan tveir leikir í undankeppni HM 2010. Tekið verður á móti Hollandi á Laugardalsvellinum, laugardaginn 6. júní kl. 18:45. Miðvikudaginn 10. júní verður svo leikið við Makedóníu ytra og hefst sá leikur kl. 15:45 að íslenskum tíma.
Holland er í efsta sæti riðilsins og hefur sigrað í öllum fimm leikjum sínum til þessa. Með sigri gulltryggir hollenska liðið sér sæti í úrslitakeppni HM 2010 í Suður Afríku. Ísland er í þriðja sæti riðilsins með fjögur stig eftir fimm leiki. Skotar eru í öðru sæti með sjö stig.
Englendingurinn Mike Dean mun dæma leikinn gegn Hollandi en hann dæmdi á dögunum úrslitaleik á milli Burnley og Sheffield United um sæti í ensku úrvalsdeildinni en leikið var á Wembley.
Stórþjóðin Holland hefur reynst okkur Íslendingum erfið hindrun á knattspyrnuvellinum. Þjóðirnar hafa mæst 12 sinnum og hafa Hollendingar sigrað í níu leikjum, tvisvar hefur orðið jafntefli og Íslendingar hafa einu sinni farið með sigur af hólmi. Það var árið 1961 þegar áhugamannalandslið Hollands var lagt af velli á Laugardalsvelli, 4-3.
Jafnara er komið á milli Íslands og Makedóníu á knattspyrnuvellinum. Þjóðirnar hafa mæst þrisvar sinnum og hafa þjóðirnar unnið sinnhvorn leikinn og einum leik hefur lokið með jafntefli. Markatalan úr þessum þremur leikjum er jöfn, 2-2.
Miðasala á Ísland – Holland hefur gengið vel og eru landsmenn hvattir til þess að tryggja sér miða í tíma.
Mætum í bláu og látum í okkur heyra!