• þri. 12. maí 2009
  • Landslið

Mótherjarnir klárir fyrir úrslitakeppni EM U19 kvenna

EM U19 landsliða kvenna
em_u19_kvenna

Í kvöld var dregið í riðla í úrslitakeppni U19 kvenna en keppnin fer fram í Hvíta Rússlandi dagana 13. - 25. júlí.  Dregið var í Minsk og lenti íslenska liðið í riðli með Englandi, Noregi og Svíþjóð.

Ljóst er að verkefnið verður krefjandi en gríðarlega spennandi.  Allt eru þetta gríðarlega sterkar þjóðir með mikla hefð varðandi kvennaknattspyrnu.  Íslensku stelpurnar ættu að þekkja ágætlega til sænska liðsins en þjóðirnar léku saman í milliriðli í Póllandi í apríl.  Leiknum þá lauk með markalausu jafntefli.

Í hinum riðlinum leika Hvíta Rússland, Frakkland, Sviss og Þýskaland.

Tvö efstu lið hvers riðils komast í undanúrslit og tryggja sé í leiðinni þátttökurétt á HM U20 2010 sem leikin verður í Þýskalandi.  Ef Þjóðverjar verða einu af fjórum efstu sætunum þá verður leikið sérstaklega um 5. sæti keppninnar en það sæti gefur þá einnig sæti á HM U20 í Þýskalandi 2010 þar sem Þjóðverjar leika þar sem gestgjafar.

Fyrsti leikur Íslands verður gegn Noregi 13. júlí.  Svíar verða mótherjarnir 16. júlí og síðasti leikurinn er gegn meyjum Mo Marley, Englandi, 19. júlí. 

Allir leikir Íslands hefjast kl. 17:00 að staðartíma en búast má við töluverðum hita í Minsk og nágrenni á þessum tíma árs.  Leikið verður gegn Svíum á Darida Stadium en þar lék A landslið kvenna við Hvít Rússa í maí 2006.