Frábær árangur hjá stelpunum okkar!
Íslenskar knattspyrnukonur hafa stimplað sig inn í keppni þeirra bestu í Evrópu. Síðasta haust fylgdumst við öll með þegar A-landslið kvenna sigraði Írland á svellinu í Laugardalnum. Aðdáunarvert var að sjá stelpurnar gefa sig allar í verkefnið og þær sýndu það svo sannarlega að þær eiga fullt erindi í úrslitakeppni Evrópumótsins, fyrst íslenskra A-landsliða, sem haldin verður í Finnlandi í ágúst.
Stelpurnar í 19 ára landsliðinu fylgdu eftir góðum árangri A-liðsins og sigruðu erfiðan milliriðill sinn í Evrópumóti 19 ára landsliða. Þær eru nú einnig komnar í úrslitakeppni Evrópumótsins sem haldið verður í Hvíta-Rússlandi í júlí. Liðið spilaði í erfiðum riðli með liðum Danmerkur, Svíþjóðar og Póllands en stelpurnar sýndu hvers þær eru megnugar og unnu riðilinn. Í liðinu eru stelpur sem hafa margar hverjar spilað saman lengi og öðlast reynslu síðustu ár. Framtíðin er svo sannarlega björt og spennandi. Það verður gaman að fylgjast áfram með þessum stelpum þegar þær fara að banka á dyr A-landsliðsins og stimpla sig þar inn. Sara Björk hefur þegar unnið sér fast sæti í A-liðinu og Fanndís stigið sín fyrstu skref inn í hópinn.
Þessi frábæri árangur íslensku landsliðanna er uppskera mikilla vinnu sem fram hefur farið hjá mörgum af knattspyrnufélögum landsins en þau hafa unnið gífurlega gott uppbyggingarstarf í knattspyrnu kvenna. Metnaðurinn og gæðin eru mikil og það sýnir þessi árangur. Einnig hefur menntun þjálfara skilað sér í betri þjálfun. Árangurinn sýnir sig einnig í þeim fjölda íslenskra kvenna sem gerðust atvinnumenn í knattspyrnu síðasta haust. Margar íslenskar knattspyrnukonur eru orðnar atvinnumenn í einni sterkustu deild í Evrópu, það eitt og sér er staðfesting á gæðum íslenskrar kvennaknattspyrnu.
Við getum því ekki annað en verið stolt af stelpunum okkar, tvö lið frá litla Íslandi í úrslitakeppni í Evrópumóti á sama árinu. Þetta undirstrikar það sem áður hefur verið sagt, árangur erfiðisins er að skila sér. Stelpurnar okkar eru komnar í hóp þeirra bestu.
Áfram Ísland – áfram stelpur!
Guðrún Inga Sívertsen
fomaður landsliðsnefndar kvenna