U19 kvenna í úrslit á EM!
Stelpurnar í U19 kvenna gerðu sér lítið fyrir í dag og tryggðu sér sæti í úrslitakeppni EM sem fram fer í Hvíta Rússlandi í júlí. Ísland gerði jafntefli við Pólland í lokaumferðinni á meðan Svíar unnu Dani með einu marki gegn engu. Leikur Íslands og Póllands var gríðarlega spennandi og sveiflukenndur.
Fyrri hálfleikur byrjaði fjörlega og átti Fanndís Friðriksdóttir 2 ágætis skot að marki heimastúlkna án árangurs. Hinu megin komust Pólverjar í gott færi þegar sóknarmaður þeirra slapp í gegn en skaut framhjá. Þetta gerðist alla á fyrstu fimm mínútum leiksins en eftir það var leikurinn í járnum og ekki mikið um færi. Besta færi hálfleiksins kom á 42. mínútu þegar að Anna Þórunn Guðmundsdóttir átti frábært skot að marki en markvörður pólska liðsins varði á undraverðan hátt.
Staðan markalaus í hálfleik og Svíar höfðu yfir gegn Dönum í hálfleik með einu marki gegn engu. Eins og staðan var þá var íslenska liðið áfram, væri með jafnmörg stig og Svíar en kæmust áfram á fleiri skoruðum mörkum.
Heimastúlkur komu ákveðnar til leiks í síðari hálfleik og á 61. mínútu komust þær yfir. Fjórum mínútum síðar bættu þær öðru marki við eftir aukaspyrnu en leikmenn og aðstandendur íslenska liðsins vildu meina að skorað hefði verið með hönd í það skiptið. Pólsku leikmennirnir fögnuðu að vonum enda voru þær farnar að eygja möguleikann á sæti í úrslitakeppninni. Hinsvegar meiddist einn leikmaður þeirra í fagnaðarlátunum og þar sem pólska liðið hafði framkvæmt allar sínar skiptingar, þurftu þær að leika einum færri sem eftir lifði leiks. Íslenska liðið bætti nú heldur betur í sóknarþungann og á 69. mínútu minnkaði Thelma Björk Einarsdóttir muninn og í hönd fóru æsispennandi 20 mínútur.
Íslenska liðið sótti án afláts til þess að jafna metin, því jafntefli gæti dugað ef úrslit í leik Danmerkur og Svíþjóðar væru hagstæð. Það bar svo ávöxt á 87. mínútu þegar að Berglind Björg Þorvaldsdóttir kom boltanum í markið. Nú hófst mikill spenna innan vallar sem utan þar sem forráðamenn íslenska liðsins drógu upp símana og reyndu að fá fréttir úr hinum leik riðilsins.
Íslenska liðið hélt áfram að sækja en markvörður heimastúlkna varði hvað eftir annað glæsilega. Á lokasekúndum leiksins björguðu pólsku stelpurnar á marklínu og stuttu síðar flautaði dómari leiksins til leiksloka.
Stigið þýddi að Ísland var með fimm stig og með sigri sínum leik færi sænska liðið einnig í fimm stig. Liðin gerðu jaftntefli í leik sínum, 0-0 og markatala var jöfn hjá báðum liðum. Hinsvegar er efsta sætið Íslendinga þar sem þær skoruðu fleiri mörk. Markatala íslenska liðsins var 5-4 en 1-0 hjá sænska liðinu. Þegar að það fékkst svo staðfest frá UEFA að sætið var Íslendinga brutust út mikil fagnaðarlæti hjá hópnum.
Frábær árangur hjá stelpunum, úrslitakeppnin í Hvíta Rússlandi framundan en hún fer fram dagana 13. – 25. júlí. Það eru því tvö kvennalandslið í úrslitum EM í sumar.
Til hamingju stelpur! – Til hamingju Ísland!
Mynd:
Efri röð frá vinstri: Ingibjörg Hinriksdóttir fararstjóri, Ólafur Þór Guðbjörnsson þjálfari, Silvía Rán Sigurðardóttir, Elínborg Ingvarsdóttir, Mist Edvardsdóttir, Anna Þórunn Guðmundsdóttir, Berglind Björg Þorvaldsdóttir, Arna Sif Ásgrímsdóttir, Dagný Brynjarsdóttir, Andrea Ýr Gústavsdóttir, Þórhildur Stefánsdóttir, Gary Wake aðstoðarþjálfari, Ingigerður Júlíusdóttir liðsstjóri, Guðrún Sigurðardóttir sjúkraþjálfari.
Fremri röð frá vinstri: Íris Björg Eysteinsdóttir fararstjóri, Katrín Ásbjörnsdóttir, Thelma Björk Einarsdóttir, Berglind Bjarnadóttir, Birna Berg Haraldsdóttir, Fanndís Friðriksdóttir fyrirliði, Nína Björk Gísladóttir, Hrefna Ósk Harðardóttir, Freyja Viðarsdóttir og Þórhildur Ólafsdóttir.
Á myndina vantar Hjört Þór Hauksson sem var upptekinn við myndatöku þegar þessi mynd var tekin.