U19 kvenna fer í úrslitakeppnina með sigri á Póllandi
Á morgun leikur íslenska U19 kvennalandsliðið lokaleik sinn í milliriðli fyrir EM en leikið er í Póllandi. Íslenska liðið er efst í riðlinum þegar einn leikur er eftir en efsta liðið fer beint í úrslitakeppnina sem leikin verður í Hvíta Rússlandi 13. - 25. júlí.
Ísland er með fjögur stig en baráttan er hörð og eiga öll fjögur liðin möguleika á að tryggja sér efsta sætið. Íslensku stelpurnar munu hinsvegar tryggja sér efsta sætið með sigri á Póllandi. Jafntefli dugar liðinu ef að Svíar og Danir gera einnig jafntefli í sínum leik.
Allir milliriðlarnir eru leiknir á sama tíma en þeir eru sex talsins. Efsta þjóðin í hverjum riðli tryggir sér sæti í úrslitakeppninni og það lið sem er með bestan árangur í öðru sæti úr riðlinum sex. England og Sviss hafa þegar tryggt sér efsta sætið í sínum riðli.