Jafnt gegn Svíum hjá U19 kvenna
Stelpurnar í U19 kvenna náðu í gott stig í milliriðli fyrir EM en leikið er í Póllandi. Svíar voru mótherjarnir í dag og lauk leiknum með markalausu jafntefli. Úrslitin þýða að Íslendingar eru með fjögur stig eftir tvo leiki en lokaleikur riðilsins fer fram á þriðjudaginn en þá mæta íslensku stelpurnar heimastúlkum frá Póllandi.
Varnarleikurinn var aðalsmerki íslenska liðsins í dag en sænska liðið sótti meira í leiknum en íslensku stelpurnar vörðust skynsamlega og gáfu fá færi á sér. Þrátt fyrir örvæntingafullar tilraunir sænska liðsins að knýja fram sigur þá stóðu stelpurnar öll áhlaup af sér og tryggðu sér dýrmætt stig.
Efsta liðið í riðlinum fer í úrslitakeppnina sem fer fram í Hvíta Rússlandi. Íslenska liðið er í efsta sæti sem stendur en Pólverjar geta náð íslenska liðinu að stigum með sigri á Dönum í dag.
Lokaumferðin fer fram á þriðjudaginn þegar að Ísland mætir Póllandi og Svíar og Danir eigast við. Báðir leikirnir hefjast kl. 09:00 að íslenskum tíma.