• fim. 23. apr. 2009
  • Landslið

Sætur sigur á Dönum hjá U19 kvenna

Fanndís Friðriksdóttir
Fanndis_Fridriksdottir

Stelpurnar í U19 kvenna byrjuðu milliriðilinn í EM frábærlega í dag þegar þær mættu stöllum sínum frá Danmörku.  Íslensku stelpurnar fóru með sigur af hólmi með þremur mörkum gegn tveimur.  Öll mörkin komu í fyrri hálfleik en leikið er í Póllandi.

Fyrirliðinn, Fanndís Friðriksdóttir, fór mikinn í fyrri hálfleiknum og skoraði þrennu.  Danir komust yfir á 3. mínútu en Fanndís jafnaði á 11. mínútu með góðu skoti í stöngina og inn.  Danir komust aftur yfir á 25. mínútu en Fanndís jafnaði metin að nýju sjö mínútum síðar, nú með langskoti.  Á lokasekúndum fyrri hálfleiks var svo brotið á Berglindi Björg Þorvaldsdóttur innan vítateigs og Fanndís fullkomnaði þrennu sína með því að skora úr vítaspyrnunni.

Jafnræði var með liðunum í síðari hálfleiknum þó svo að Danir hafi verið meira með boltann.  Íslenska liðið spilaði skynsamlega, varðist vel og sóttu þegar að færi gafst.

Veikindi hafa verið að hrjá hópinn og gátu Arna Sif Ásgrímsdóttir og Þórhildur Stefánsdóttir ekki leikið með í dag sökum veikinda.

Næsti leikur Íslands í riðlinum er gegn Svíum á laugardaginn og hefst kl. 10:00 að íslenskum tíma.

Leikskýrsla