• mið. 22. apr. 2009
  • Landslið

Flestir leikmenn frá Hollandsmeisturum AZ

Landsliðsþjálfari Hollands, Vera Pauw
Vera_Pauw

Landsliðsþjálfari Hollands, Vera Pauw, hefur valið 20 leikmenn sem munu mæta Íslendingum í vináttulandsleik í Kórnum næstkomandi laugardag kl. 16:00.

Flestir leikmenn hópsins koma frá Hollandsmeisturum AZ eða fimm talsins en langflestir leikmennirnir leika í heimalandinu.  Tveir leikmenn leika á erlendri grundu, leikjahæsti leikmaðurinn Annemieke Kiesel-Griffioen leikur með Duisburg í Þýskalandi og markahæsti leikmaður hópsins, Manon Melis, leikur með Ldb Malmö í Svíþjóð.  Hún var annar markahæsti leikmaður deildarinnar í Svíþjóð á síðasta ári með 22 mörk, einu marki minna en hin brasilíska Marta.   Markahæsti leikmaður hollensku deildarinnar um þessar mundir er miðjumaðurinn Sylvia Smit en hún hefur skorað 13 mörk í 20 leikjum.

Núverandi meistarar, AZ, leiða einnig deildina í Hollandi á þessum tímapunkti er flest liðin eiga 3-4 leiki eftir.  Fast á hæla þeirra kemur ADO Den Haag en þessi félög mætast einmitt í næstu umferð.

Þjálfarinn Vera Pauw tók við landslið Hollands árið 2004.  Hún er fyrrum landsliðsfyrirliði Hollendinga og lék 89 landsleiki áður en hún lagði skóna á hilluna árið 1998.  Hún tók þá við landsliði Skota og náði að koma Skotum á kortið í kvennaknattspyrnunni áður en hún gerðist landsliðsþjálfari Hollands.  Hún er einnig fyrsta konan sem fær UEFA Pro Licence gráðu í Hollandi.

Hollenski hópurinn