• þri. 21. apr. 2009
  • Landslið

Fyrri viðureignir Íslands og Hollands

Alidkv1993-0001
Alidkv1993-0001

Þegar Ísland og Holland mætast í Kórnum, laugardaginn 25. apríl kl. 16:00, verður þetta í sjötta skiptið sem þessar þjóðir mætast í A landsleik kvenna.  Íslendingar hafa  fjórum sinnum farið með sigur af hólmi en Hollendingar einu sinni. 

Fyrsti leikur þjóðanna var í undankeppni fyrir EM 95 og var leikinn árið 1993 á Laugardalsvelli í rigningu og strekkingsvindi undir flóðljósum..  Ísland lagði þá Holland 2-1 og voru það Guðrún Sæmundsdóttir og Ásta B. Gunnlaugsdóttir sem skoruðu mörk Íslands.  Sigurmark Ástu kom rétt fyrir leikslok en hún var að leika sinn 20. landsleik í þessum leik.  Tveir ungir leikmenn, Ásthildur Helgadóttir og Margrét Ólafsdóttir, léku þarna sinn annan A landsleik og Guðlaug Jónsdóttir lék sinn þriðja landsleik.

Holland - Ísland 0-1, EM - Rotterdam 24. september 1994Þjóðirnar áttust aftur við í sömu keppni árið 1994 og var leikið í Rotterdam.  Þar tryggðu íslensku stelpurnar sér sæti í átta liða úrslitum EM með því að leggja heimastúlkur.  Úrslitin urðu 0-1 og skoraði Olga Færseth sigurmarkið í síðari hálfleik í sínum fyrsta landsleik.  Katrín Jónsdóttir kom inná undir lok leiksins í sínum öðrum landsleik og Helga Ósk Hannesdóttir lék sinn fyrsta landsleik.  Liðið lék svo gegn Englandi í átta liða úrslitum, heima og heiman.  Báðir leikirnir enduðu 2-1 Englendingum í vil.

Íslenska liðið gegn Hollandi í Den Ham 5. júní 1996Ísland og Holland voru aftur saman í riðli fyrir undankeppni EM 97 og léku þjóðirnar á Laugardalsvelli í október 1995.  Íslenska liðið fór þá með sigur af hólmi, 2-0.  Ásthildur Helgadóttir og Margrét Ólafsdóttir skoruðu mörk Íslands í síðari hálfleik.  Síðari leikur þjóðanna í undankeppninni fór fram í Den Ham í Hollandi í júní 1995.  Íslenska liðið hafði sigur með sömu markatölu og í fyrri leiknum og voru það Katrín Jónsdóttir og Ásthildur Helgadóttir sem skoruðu mörk Íslands.  Markvörðurinn Sigfríður Sophusdóttir varði vítaspyrnu í upphafi síðari hálfleiks í stöðunni 0-1.

Það liðu svo 10 ár þangað til að næsti A landsleikur kvenna fór fram á milli þessara þjóða.  Það var vináttulandsleikur sem leikinn var í Zwolle í apríl 2006.  Hollenska vann þá í fyrsta skiptið, 2-1.  Hólmfríður Magnúsdóttir skoraði mark Íslands.  Olga Færseth lék þarna sinn síðasta landsleik og var sá 54. í röðinni.