FIFA námskeiðin tókust vel
Um síðustu helgi voru haldin tvö námskeið í þjálfun barna 6-12 ára. Kennari á námskeiðunum var Martin Andermatt en hann kom hingað til lands á vegum Alþjóðaknattspyrnusambandsins (FIFA).
Fyrra námskeiðið var haldið í Kórnum í Kópavogi og mættu u.þ.b. 40 manns. Fengnir voru sýnikennsluhópar frá HK og Breiðabliki til að taka þátt í verklega hluta námskeiðsins.
Síðara námskeiðið var svo haldið á Akureyri, bæði í Glerárskóla og í Boganum. Rétt tæplega 20 manns sóttu námskeiðið á Akureyri, auk þess sem krakkar frá Þór og KA tóku þátt í verklegum æfingum sem Martin lagði fyrir krakkana.
Martin Andermatt vill koma á framfæri sérstöku þakklæti til allra sem komu á námskeiðin tvö og einnig til þeirra krakka sem tóku þátt í verklegu æfingunum. KSÍ tekur undir það og þakkar þátttakendum kærlega fyrir ánægjulega helgi.