• mið. 01. apr. 2009
  • Landslið

15 sæti á lausu til Skotlands - Aprílgabb!

Heimavöllur Skota, Hampden Park í Glasgow
Hampden_Park

 

Á öryggisfundi á leikstað í gærkvöldi sem haldinn var fyrir leik Skotlands og Íslands í undankeppni HM 2010, kom í ljós að búningur íslenska liðsins uppfyllti ekki reglur FIFA um merkingar á búningum. Fyrir mistök voru keppnisbúningar íslenska liðsins rangt merktir en á honum er KSÍ merkið of stórt. Um áramót tók í gildi ný reglugerð hjá FIFA varðandi merkingar á búningum fyrir leiki Heimsmeistarakeppninnar 2010, þar var gert að skyldu að merki viðkomandi knattspyrnusambanda megi ekki vera mera en 7cm2, núverandi merki er 8,5cm2. Starfsmönnum landsliðsins var því vandi á höndum og eftirlitsmaður FIFA samþykkti ekki þær breytingar sem búningastjórinn, Björn Ragnar Gunnarsson, gerði á búningnum.

Starfsmenn Safalans, sem er umboðsaðili Errea á Íslandi, brugðust skjótt við og verður nýtt búningasett er uppfyllir allar kröfur FIFA tilbúið nú um hádegisbil. Til að tryggja að búningarnir komist örugglega til skila á réttum tíma hefur KSÍ leitað til Félags íslenskra Atvinnuflugmanna (FÍA) um flutninginn og brugðust þeir ákaflega vel við beiðninni.  Flugmenn á þeirra vegum munu ferja búningana til Glasgow í 19 sæta öflugri vél.  Eiga þeir FÍA menn þakkir skyldar fyrir að bjarga málum með svo stuttum fyrirvara og er formanni félagsins, Jóhannesi Bjarna Guðmundssyni, sérstaklega þökkuð hans aðkoma að málinu.

Knattspyrnusambandið hefur ákveðið að nýta þau sæti sem eftir standa og efna til dagsferðar á leikinn.  Ferðin er þátttakendum að kostnaðarlausu nema að greiða þarf 4.500 krónur fyrir miðann á leikinn sjálfan. KSÍ útvegar miðana.

Ljóst er að margir geta hugsað sér að komast í þessa ferð og mun því verða efnt til spurningakeppni í höfuðstöðvum KSÍ (3. hæð) til að velja þátttakendur í ferðina.  Spurningarnar munu fjalla um íslensk landslið og íslenska knattspyrnu.  Þeir tólf sem bestan árangur hafa úr þessari keppni komast með í ferðina og dregið verður um hin þrjú sætin á milli allra þátttakenda. Keppnin hefst kl. 10:00 en opnað er fyrir skráningu í keppnina kl. 09:30.  Einungis er hægt að skrá sig með því að mæta á staðinn. Ekki er tekið við skráningum í síma eða tölvupósti. Þátttakendur þurfa að vera orðnir 18 ára 

Farið verður frá Reykjavíkurflugvelli kl. 13:15 og komið til baka um 02:30.  Lent verður þá í Keflavík þar sem flugumferð er ekki leyfð á Reykjavíkurflugvelli eftir kl. 23:00 á virkum dögum. Þátttakendum er bent á að vera með vegabréf meðferðis.

1. apríl!!