• þri. 31. mar. 2009
  • Landslið

Vel tekið á leikmönnum

Stefán Stefánsson sjúkraþjálfari að störfum í Skotlandi.  Nuddarinn, Óðinn Svansson, fylgist spenntur með.
Stefan_nuddari_ad_storfum

Á milli æfinga og funda eru leikmenn í meðferð hjá starfsmönnum landsliðsins en með hópnum eru til taks læknir, sjúkraþjálfari og nuddari að ógleymdum hinum árvökula búningastjóra, Birni Ragnari Gunnarssyni.

Á myndinni sem fylgir hér að neðan má sjá Eggert Gunnþór Jónsson í meðferð hjá Stefáni Stefánssyni sjúkraþjálfara.  Er óhætt að segja að Stefán leggi sig allan til í verkið og nuddarinn, Óðinn Svansson, fylgist spenntur með.

Hópurinn er þessa stundina á síðustu æfingunni fyrir leikinn og fer hún fram á Hampden Park.  Myndin hér neðst í fréttinni er frá æfingunni og má sjá Ólaf Jóhannesson fara yfir hlutina með leikmönnum.

Í morgun fór hópurinn í Laser Tag og var sem fyrr skipt lið.  Liðin voru þrjú í þetta skiptið og voru þau aldursskipt.  Fór svo að hið ævaforna lið fór með sigur af hólmi, þeir miðaldra urðu í öðru sæti og þeir yngstu ráku lestina.  Í einstaklingskeppninni fór svo að Veigar Páll Gunnarsson sigraði örugglega og er þetta í annað skiptið í röð sem hann sigrar þessa keppni.  Aron Einar Gunnarsson varð í öðru sæti og þriðja sætið hreppti Gunnar Gylfason, starfsmaður landsliðsnefndar.

Leikur Skotlands og Íslands er í undankeppni fyrir HM 2010, hefst kl. 19:00 að íslenskum tíma og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.

Stefán Stefánsson sjúkraþjálfari að störfum í Skotlandi. Nuddarinn, Óðinn Svansson, fylgist spenntur með.

Frá æfingu á Hampden Park fyrir leik Skotlands og Íslands 1. apríl 2009