Dómarasáttmáli UEFA undirritaður
Á fundi framkvæmdastjórnar UEFA á dögunum varð KSÍ formlega aðili að dómarasáttmála UEFA. Það voru þeir Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ, Þórir Hákonarson, framkvæmdastjóri KSÍ og Þórarinn Dúi Gunnarsson frá Dómaranefnd KSÍ er voru viðstaddir undirritunina fyrir hönd Knattspyrnusambands Íslands.
Það var í lok árs 2006 að Knattspyrnusamband Íslands sótti um aðild að sáttmálanum og hefur vinna staðið yfir síðan þá, í samvinnu við fulltrúa UEFA, að uppfylla ákvæði sáttmálans.
Með aðild að dómarasáttmálanum skuldbindur KSÍ til þess að vinna eftir gæðakerfi UEFA er lýtur að dómaramálum. Í því felst m.a. menntun dómara á öllum stigum, nýliðun dómara, umgjörð dómara og þjálfun þeirra dómara sem lengra eru komnir. Þá er einnig tekið á menntun eftirlitsmanna dómara.
Þetta er mikil viðurkenning fyrir störf Knattspyrnusambands Íslands að dómaramálum og mikilvægt skref til eflingar dómaramála í landinu.