• þri. 31. mar. 2009
  • Landslið

Æft á Hampden Park í kvöld

Pétur Pétursson, Þorgrímur Þráinsson og Ólafur Jóhannesson á æfingu fyrir Skotaleikinn í Glasgow 2009
Petur,_Oli_og_Torgrimur

Undirbúningur íslenska hópsins fyrir leikinn gegn Skotum á morgun er í fullum gangi og var æft tvisvar sinnum í gær.  Ein æfing verður í kvöld og fer hún fram á leikstaðnum sjálfum, Hampden Park.

Í gærkvöldi fór fram hin hefðbunda spurningakeppni hópsins en hennar hafði verið beðið með mikilli eftirvæntingu.  Fór að lokum svo að ungir unnu gamla eftir æsispennandi keppni og þurfti bráðabana til að knýja fram úrslit.  Í þriðja sæti var, sem fyrr, lið starfsmanna og fararstjóra en hefur munurinn aldrei verið eins lítill og í þetta skiptið.  Reyndar var nokkur kurr á meðal liðs starfsmanna og liðsstjóra, sem fyrr voru undir forystu búningastjórans próteinríka Björns Ragnars Gunnarssonar, því fannst þeir órétti beittir.  Fór svo að þeir sendu inn kæru vegna nokkurra spurninga en þeim var vísað frá af dómara og spyrli keppninnar, Gunnleifs Gunnleifssonar.  Hann sér einnig um að semja spurningarnar og gátu glöggir menn getið sér það til enda töluvert spurt um Manchester City, þýska markmenn og Hubba Bubba.

Íslendingar eru sem stendur í öðru sæti riðilsins með fjögur stig, jafn mörg stig og Skotar en hafa betra markahlutfall sem nemur einu marki.  Makedónía er með þrjú stig en hafa leikið einum leik minna en Ísland og Skotland.  Makedóna og Holland mætast einnig á morgun en Holland er efst í riðlinum, hafa unnið alla sína leiki.  Noregur rekur svo lestina með tvö stig eftir þrjá leiki.  Það er því útlit fyrir hörkukeppni um annað sætið í riðlinum 

Leikurinn er í undankeppni fyrir HM 2010, hefst kl. 19:00 að íslenskum tíma og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.

Riðill Íslands

Pétur Pétursson, Þorgrímur Þráinsson og Ólafur Jóhannesson á æfingu fyrir Skotaleikinn í Glasgow 2009

Frá æfingu á Broadwood Stadium