Landsliðið æfir á Broadwood Stadium
Strákarnir í íslenska landsliðinu eru nú í Glasgow þar sem þeir undirbúa sig fyrir landsleikinn við Skota á miðvikudaginn. Leikurinn er í undankeppni fyrir HM 2010 og verður leikinn á Hampden Park. Leikurinn hefst kl. 19:00 að íslenskum tíma og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.
Landsliðið æfði stuttu eftir komuna til Glasgow í gær og í dag eru fyrirhugaðar tvær æfingar. Myndirnar er fylgja með fréttinni eru teknar af hinum margsaga búningastjóra, Birni Ragnari Gunnarssyni, á æfingunni í morgun. Íslenska liðið æfir á heimavelli 1. deildar liðsins Clyde og heitir völlur þeirra Broadwood Stadium. Allar æfingar íslenska liðsins fara fram á þessum velli nema æfingin annað kvöld, sem fer fram á sjálfum Hampden Park.
Félagið Clyde er sögufrægt félag í Skotlandi og var stofnað árið 1877 og hefur félagið hið sérstaka gælunafn "The Bully Wee" Leikvangurinn er þó öllu yngri, var tekinn í notkun árið 1994. Clyde hefur átt erfitt uppdráttar á tímabilinu og verma neðsta sætið í næst efstu deildinni í Skotlandi sem stendur.
Myndir: Hér að neðan má sjá nýliðann Birki Bjarnason á æfingunni í morgun og í baksýn er Ármann Smári Björnsson. Á næstu mynd má sjá þá Hermann Hreiðarsson og Eið Smára Guðjohnsen.