Hópurinn gegn Færeyjum tilkynntur
Ólafur Jóhannesson, landsliðsþjálfari, hefur tilkynnt landsliðshóp sinn er mætir Færeyingum í vináttulandsleik í Kórnum þann 22. mars næstkomandi kl. 14:00. Hópurinn er ungur að árum, átta nýliðar í hópnum og hefur leikreyndasti leikmaður hópsins leikið 11 A landsleiki.
Þessar þjóðir áttust við í vináttulandsleik á sama stað fyrir um ári síðan og höfðu þá Íslendingar betur með þremur mörkum gegn engu. Þeir Jónas Guðni Sævarsson og Tryggvi Guðmundsson skoruðu mörk Íslands auk þess sem eitt mark var sjálfsmark Færeyinga.
Leikinn dæmir hinn kunni enski dómari, Mike Riley og honum til aðstoðar verða þeir Jóhann Gunnar Guðmundsson og Áskell Gíslason. Fjórði dómari verður Þorvaldur Árnason.