• mið. 11. mar. 2009
  • Landslið

Ísland - Kína - Textalýsing

Byrjunarlið Íslands gegn Noregi á Algarve 2009.  Sigur vannst í leiknum 3-1 með mörkum frá Söru Björk Gunnarsdóttur 2 og sjálfsmarki
Byrjunlid_Noregur_Algarve_2009

Núna kl. 11:30 hófst leikur Íslands og Kína en leikið er um 5. sætið á Algarvemótinu.  Fylgst verður með leiknum hér á síðunni en þetta er síðasti leikur Íslands á þessu móti.

Byrjunarlið (4-5-1):

Markvörður: Guðbjörg Gunnarsdóttir

Hægri bakvörður: Sif Atladóttir

Vinstri bakvörður: Ólína G. Viðarsdóttir

Miðverðir: Katrín Jónsdóttir, fyrirliði og Guðrún Sóley Gunnarsdóttir

Varnartengilðir: Edda Garðarsdóttir og Dóra Stefánsdóttir

Sóknartengiliður: Margrét Lára Viðarsdóttir

Hægri kantur: Rakel Hönnudóttir

Vinstri kantur: Dóra María Lárusdóttir

Framherji: Harpa Þorsteinsdóttir

Þær María Björg Ágústsdóttir, Katrín Ómarsdóttir og Sara Björk Gunnarsdóttir eru ekki á leikskýrslu vegna meiðsla.

Ísland - Kína

Fyrri hálfleikur

Aðstæður eru til fyrirmyndar þegar finnski dómarinn flautar til leiks.  Leikið er á sama velli og leikið var gegn Noregi og vonandi að það reynist okkar stelpum vel.

Leikurinn byrjar rólega og bæði liðin að þreifa fyrir sér.  Kínverjar eru þó heldur meira með boltann.  Fyrsta hornspyrnan Kínverja og kemur hún á 8. mínútu.

Fyrsta færið er Íslendinga og kemur það á 9. mínútu.  Margrét Lára, í sínum 50. landsleik, leikur á 2 leikmenn og kemur boltanum á Hörpu Þorsteinsdóttur sem er í góðu færi en fellur við áður en hún nær skoti.

Mark Kína 0 - 1

Kínverjar eru komnir yfir með marki úr miðjum vítateig.  Sóknarmaður Kínverja var þar óvölduð og skoraði með óverjandi skoti.  Markið kemur á 21. mínútu eftir heldur rólega byrjun.

Lítið gerðist eftir markið fyrr en á 37. mínútu þegar Edda Garðarsdóttir komst í þokkalegt færi eftir sendingu frá Sif Atladóttur en skot hennar var varið í horn.  Edda tók hornspyrnuna sjálf og Rakel Hönnudóttir átti skalla sem hafnaði í stönginni.  Stuttu síðar vildu íslensku leikmennirnir fá vítaspyrnu eftir að Rakel var í baráttu í vítateignum en ekkert var dæmt.  Rakel þurfti að yfirgefa völlinn til að fá aðhlynningu en er komin inn á aftur.

Íslenska liðið er að sækja í sig veðrið en stutt er að finnski dómarinn flauti liðin til búningsherbergja.

Sigurður Ragnar hefur þurft að gera breytingu á liði sínu undir lok fyrri hálfleiks.  Rakel Hönnudóttir er farin útaf, fékk höfuðhögg þegar hún átti skallann og er hálfvönkuð á eftir.  Inn í hennar stað kemur Fanndís Friðriksdóttir eða "Fanndís Fritz" eins og portúgalski vallarþulurinn kynnir hana til leiks.

Mark Ísland 1 - 1

Harpa Þorsteinsdóttir skorar sitt fyrsta landsliðsmark.  Hún hirti boltann af kínversku varnarmönnunum sem voru eitthvað að dútla með boltann og afgreiddi hann einkar snyrtilega í netið.  Markið kom þegar 2 mínútur voru liðnar af uppbótartíma í fyrri hálfleik og um leið og þær kínversku tóku miðjuna var flautað til leikhlés.

 

Seinni hálfleikur

Seinni hálfleikur byrjar fjörlega og liðin sækja til skiptis.  Margrét Lára fékk ágætis færi eftir 5 mínútur en skaut framhjá og stuttu síðar átti Dóra María skot framhjá. 

Á 54. mínútu kemur svo Erla Steina Arnardóttir inn á í stað Dóru Stefánsdóttur.

Það er meira fjör í seinni hálfleik og íslenska liðið mætir því kínverska framar á vellinum.  Á 61. mínútu kemur Hólmfríður Magnúsdóttir inn fyrir Dóru Maríu Lárusdóttur.

Mark Kína 1 - 2

Kínverjar hafa komist yfir að nýju.  Sóknarmaður þeirra fékk stungusendingu inn fyrir vörn íslenska liðsins og skoraði örugglega.  Markið kemur á 69. mínútu, um 20 mínútur sem íslenska hefur til að jafna leikinn.

Íslenska liðið sækir töluvert meira þessa stundina og heldur er dregið af kínverska liðinu sem notar öll tækifæri til að tefja leikinn.

Margrét Lára kemst í gott færi á 74. mínútu en skot henna sleikir stöngina og fer rétt framhjá.

Þær Erna B. Sigurðadóttir og Hallbera Guðný Gísladóttir eru komnar inn á í stað Ólínu G. Viðarsdóttur og Hörpu Þorsteinsdóttur.

Leiknum er lokið með sigri Kínverja, 1 - 2 og 6. sætið því Íslendinga. Seinni hálfleikur var betur leikinn af hálfu íslenska liðsins en stelpurnar náðu ekki að skapa sér nógu mörg marktækifæri.

Leikskýrsla