Ísland - Danmörk - Textalýsing
Núna kl. 15:00 hófst leikur Íslands og Danmörku í lokaumferð riðlakeppni á Algarve Cup. Með jafntefli eða sigri tryggir Ísland sér annað sætið í riðlinum og þar með leik um 3. sætið á mótinu. Fylgst verður með leiknum hér að neðan.
Byrjunarlið (4-5-1):
Markvörður: María B. Ágústsdóttir
Hægri bakvörður: Erna B. Sigurðardóttir
Vinstri bakvörður: Ólína G. Viðarsdóttir
Miðverðir: Katrín Jónsdóttir, fyrirliði og Guðrún Sóley Gunnarsdóttir
Varnartengilðir: Edda Garðarsdóttir og Dóra Stefánsdóttir
Sóknartengiliður: Dóra María Lárusdóttir
Hægri kantur: Rakel Hönnudóttir
Vinstri kantur: Hólmfríður Magnúsdóttir
Framherji: Margrét Lára Viðarsdóttir
Þessar þjóðir mættust á þessum sama velli, Estadio Dr. Francisco Viera i Silves, á Algarve Cup árið 1997 en þá höfðu Danir betur með fjórum mörkum gegn einu. Sigrún Óttarsdóttir skoraði þá mark Íslendinga.
Ísland - Danmörk
Fyrri hálfleikur
Leikurinn er hafinn við ágætar aðstæður, veðrið mun skárra en það hefur verið síðustu daga.
Rakel Hönnudóttir stimplaði sig rækilega inn í sínum fyrsta leik í byrjunarliðinu á Algarve. Hún átti syrpu upp hægri kantinn og náði góðri fyrirgjöf en enginn komst í boltann svo ekkert varð úr.
Danska liðið er léttspilandi og hefur yfirhöndina á miðjunni fyrstu mínúturnar. Þær spila á milli sín með stuttum sendingum og eru vel hreyfanlegar. Á fyrstu sjö mínútunum hafa þær fengið tvær hornspyrnur en engin hætta hefur skapast frá þeim.
Danska liðið sækir meira og hefur fengið 5 hornspyrnu á fyrstu 15 mínútunum. Íslenska liðið á í örlitlum erfiðleikum á miðsvæðinu en nær þó að sækja hratt á danska liðið. Á 14. mínútu var Margrét Lára Viðarsdóttir við það að sleppa í gegn en dönsku varnarmennirnir náðu að komast fyrir áður en hún náði skoti.
Fyrsta dauðafæri leiksins eiga Danir, leikmaður þeirra sleppur ein í gegn en María B. Ágústsdóttir ver glæsilega frá henni.
Á fyrstu 25. mínútunum hafa Danir sótt mikið að marki Íslendinga. Tvisvar hafa Danir viljað fá vítaspyrnu eftir átök í teignum en dómarinn frá Guyana hefur látið sér fátt um finnast og látið leikinn halda áfram. Danska liðið hefur góð tök á miðjunni og okkar stelpur hafa ekki komist inn í leikinn að ráði.
Á 30. mínútu kemur besta færi Íslendinga til þessa. Dóra María Lárusdóttir fer upp hægra megin, eftir góðan samleik við Margréti Láru, en skot hennar hafnar í hliðarnetinu.
Mínútu síðar á Hólmfríður Magnúsdóttir skot að marki sem fer í varnarmann og framhjá og Íslendingar fengu sitt fyrst horn. Ekkert kom upp úr því en íslensku stelpurnar virðast vera að komast betur inn í leikinn eftir erfiða byrjun.
Mark 0 -1 Danmörk
Danir komast yfir á 36. mínútu. Margrét Lára var við það að sleppa í gegn en féll við rétt við vítateigslínu Dana. Íslendingar vildu fá aukaspyrnu en ekkert dæmt svo Danir geystust í skyndisókn og komu boltanum í markið.
Flautað hefur verið til leikhlés og Danir fara til búningsherbergja með eins marks forystu. Danir hafa verið töluvert sterkari og áttu t.a.m. skot í stöng á 44. mínútu. Íslenska liðið hefur verið heldur kraftlítið en það er að vona að 15 mínútna hvíld og hálfleiksræða frá Sigurði Ragnari komi stúlkunum á tærnar.
Svíar sigruðu Þjóðverja fyrr í dag með þremur mörkum gegn tveimur eftir að hafa leitt í hálfleik með þremur mörkum. Það þýðir að Svíar og Bandaríkjamenn mætast í úrslitaleiknum á Algarve Cup. Bandaríkin leiða í leikhléi gegn Noregi með einu marki gegn engu. Þjóðverjar leika svo um þriðja sætið. Ef íslenska liðið nær að jafntefli þá mæta okkar stelpur þeim þýsku í leiknum um þriðja sætið.
Seinni hálfleikur
Seinni hálfleikur er hafinn og hefur verið gerð ein breyting á íslenska liðinu. Dóra Stefánsdóttir fór af velli og í hennar stað kom Erla Steina Arnardóttir.
Íslenska liðið kemur miklu kraftmeira til leiks í síðari hálfleik og eftir fjórar mínútur komst Rakel í ágætis færi en skot hennar fór framhjá.
Á 55. mínútu á Rakel skalla fyrir markið eftir ágæta sókn og fyrirgjöf fyrir markið. Fimm mínútum síðar kemur besta færi síðari hálfleiks til þess. Danskur sóknarmaður kemst ein í gegn en María ver í horn. Úr hornspyrnunni eiga Danir skalla en yfir markið. Á 61. mínútu kom önnur skipting íslenska liðsins þegar Hólmfríður Magnúsdóttir fór af velli og í hennar stað kom Harpa Þorsteinsdóttir.
Mark 0 -2 Danmörk
Danir ná tveggja marka forystu. María ver vel frá þeim úr góðu færi en frákastið var Danana og tveggja marka forysta staðreynd. Íslenska liðið hefur verið sterkari aðilinn í síðari hálfleiknum og allt annað að sjá til liðsins heldur en í fyrri hálfleiknum. En sem fyrr eru það mörkin sem telja!
Margrét Lára komst í ágætis færi á 72. mínútu en náði ekki nógu góðu skoti svo danski markvörðurinn varði nokkuð örugglega.
Á 73. mínútu kemur Fanndís Friðriksdóttir inná í sínum fyrsta A landsleik. Hún kemur inn fyrir Dóru Maríu Lárusdóttur.
Ef fer sem horfir mun íslenska liðið leika við Kína um 5. sætið á mótinu en Kína vann Finnland í dag með einu marki gegn engu. Leikið verður um sæti á mótinu á miðvikudaginn. En það er nóg eftir af þessum leik!
Íslensku stelpurnar eru ekki hættar, Ólína á góða rispu upp kantinn á 79. mínútu en markvörður Dana nær til knattarins. Tveimur mínútum síðar fer Fanndís upp kantinn og sendir fyrir á Hörpu sem er í ágætis færi en hittir boltann illa og hann fer framhjá.
Sif Atladóttir kemur inn á 82. mínútu fyrir Ólínu G. Viðarsdóttur.
María ver vel í markinu á 84. mínútu þegar Danir eiga skalla að markinu. María hefur staðið vaktina vel í markinu og íslenska liðið greinilega ekki á flæðiskeri statt þegar kemur að markvörðum.
Á 87. mínútu fara þær Margrét Lára og Erna B. Sigurðadóttir af velli og í þeirra stað koma Hallbera Gísladóttir og Ásta Árnadóttir. Á sömu mínútu nær íslenska liðið góðri sókn og upphefst mikill darraðadans í teignum en varnarmennirnir dönsku ná að koma boltanum í burtu á síðustu stundu.
Dómarinn frá Guyana hefur flautað til leiksloka og tveggja marka sigur Dana staðreynd. Leikið verður við Kína á miðvikudagsmorgun um 5. sætið á mótinu. Tímasetning leiksins verður staðfest síðar.