• fös. 06. mar. 2009
  • Landslið

Sigurmark Bandaríkjanna á síðustu stundu

Byrjunarlið Íslands fyrir leik gegn Bandaríkjunum á Algarve 2009.  Bandaríkin sigruðu 1-0
Byrjunarlidid_Bandarikin_2009

Íslenska kvennalandsliðið tapaði ákaflega naumlega gegn því bandaríska á Algarve Cup í dag.  Lokatölur urðu 0-1 og kom sigurmark þeirra bandarísku á 89. mínútu.  Gríðarleg barátta var allan leikinn og fast leikið.

Það var ljóst frá upphafi að ekkert yrði gefið eftir í þessum leik en leikurinn var í járnum allan tímann.  Efsta lið heimslistans sótti þó meira en vörn og markvarsla íslenska liðsins var til fyrirmyndar eins og leikskipulagið allt.  Það hafði sín áhrif að Sif Atladóttir og Sara Björk Gunnarsdóttir þurftu að yfirgefa völlinn í fyrri hálfleik vegna meiðsla.

Sama baráttan hélt áfram í síðari hálfleik og gríðarleg barátta var farin að taka sinn toll síðustu mínúturnar hjá íslenska liðinu.  En þegar allt stefndi í markalaust jafntefli var það Natasha Kai sem að skoraði laglegt mark á 89. mínútu.  Síðustu andartök leiksins sótti íslenska liðið grimmt en tíminn of naumur og bandarískur sigur staðreynd.

Vonbrigði stelpnanna voru mikil en leikurinn gefur heldur betur góð fyrirheit um hvað býr í þessu liði.  Leikur við Danmörku framundan á mánudaginn og hefst hann kl. 15:00.  Danir lögðu Noreg að velli með tveimur mörkum gegn engu í dag.  Úrslitin í dag þýða að Bandaríkin eru komin í úrslitaleikinn og mæta þar annað hvort Svíþjóð eða Þýskalandi. 

Hér má sjá textalýsingu frá leiknum.

Byrjunarlið Íslands fyrir leik gegn Bandaríkjunum á Algarve 2009. Bandaríkin sigruðu 1-0