• fös. 06. mar. 2009
  • Landslið

Ísland - Bandaríkin - Bein textalýsing

Byrjunarlið Íslands gegn Noregi á Algarve 2009.  Sigur vannst í leiknum 3-1 með mörkum frá Söru Björk Gunnarsdóttur 2 og sjálfsmarki
Byrjunlid_Noregur_Algarve_2009

Nú kl. 15:00 hófst leikur Íslands og Bandaríkjanna á Algarve Cup 2009.  Við fylgjumst með helstu atriðum leiksins hér á síðunni og flytjum ykkur jafnóðum.  Íslendingar leika svo lokaleik sinn í riðlinum á mánudaginn þegar Danir verða mótherjinn.

Byrjunarlið (4-5-1):

Markvörður: Guðbjörg Gunnarsdóttir

Hægri bakvörður: Sif Atladóttir

Vinstri bakvörður: Ólína G. Viðarsdóttir

Miðverðir: Katrín Jónsdóttir, fyrirliði og Guðrún Sóley Gunnarsdóttir

Varnartengilðir: Edda Garðarsdóttir og Dóra Stefánsdóttir

Sóknartengiliður: Sara Björk Gunnarsdóttir

Hægri kantur: Dóra María Lárusdóttir

Vinstri kantur: Hólmfríður Magnúsdóttir

Framherji: Margrét Lára Viðarsdóttir

Ísland - Bandaríkin

Fyrri hálfleikur

Leikurinn er hafinn og á fyrstu fimm mínútunum hafa bæði lið fengið hornspyrnu án þess þó að nein hætta skapaðist.  Aðstæður er ágætar, völlurinn þurr og þokkalegur hiti en nokkuð hvasst.

Íslenska liðið fékk álitlega skyndisókn eftir að hafa unnið boltann á miðjunni.  Dóra María átti góða fyrirgjöf en varnarmenn bandaríska liðsins björguðu í horn.  Vindurinn hafði nokkur áhrif á hornspyrnuna því hún "fauk" yfir markið.

Leikurinn er í járnum eftir 18 mínútur og hörkuleikur framundan.  Bandaríska liðið leikur nokkuð fast en íslensku stelpurnar gefa ekkert eftir.  Vindurinn er heldur í bakið á íslensku stelpunum.  Katrín Jónsdóttir átti skalla yfir markið á 20. mínútu, góð sókn þar á ferðinni.

Leikjunum í A riðli er lokið.  Svíþjóð vann Finnland 1-0 og Þýskaland vann Kína, 3-0.  Svíþjóð og Þýskaland leika því á mánudaginn um það hvor þjóðin fer í úrslitaleikinn. 

Í hinum leik riðils Íslands, B riðli, hafa Danir komist yfir gegn Norðmönnum, 1-0.

Besta sókn Bandaríkjanna til þessa en Amy Rodriques skýtur framhjá.  Aðeins liggur á íslenska liðinu í augnablikinu.

Enn er markalaust og 33 mínútur liðnar af leiknum.  Ekki mikið af opnum færum en síðustu mínútur hefur efsta lið heimslistans sótt heldur meira.

Brotið á Sif Atladóttur og þarf hún að yfirgefa völlinn til aðhlynningar.  Hún mun ekki halda leiknum áfram og kemur Erna Björk Sigurðardóttir inn í hennar stað.

Fimm mínútur til leikhlés og leikurinn en í járnum og markalaus.

Fyrsta áminningin í leiknum fá þær bandarísku á 42. mínútu fyrir brot á Söru Björk.  Það þarf að hlynna að henni, vonandi að hún harki þetta af sér.  Það er ekkert gefið eftir.

Sara Björk þarf að yfirgefa völlinn og kemur Katrín Ómarsdóttir inn í hennar stað.  Katrín kemur inn á 45. mínútu.

Þýski dómarinn hefur flautað til leikhlés og staðan markalaus.  Hörkuleikur og hafa tveir leikmenn íslenska liðsins þurft að yfirgefa völlinn eftir brot frá þeim bandarísku.  Leikurinn verið í járnum og ekki mikið um opin færi en bandríska liðið sótti meira seinni hluta hálfleiksins.

Seinni hálfleikur

Bandaríska liðið hefur gert tvær breytingar.  Inn koma þær Lindsay Tarpley og Heather O´Reilly.  Engir aukvisar þar á ferðinni því samtals hafa þær leikið 224 landsleiki og skorað í þeim 54 mörk.  Þær koma inn fyrir leikmenn sem leikið hafa samtals 7 landsleiki og skorað í þeim 2 mörk.

Reynsluboltarnir virðast hafa góð áhrif á sitt lið.  Guðbjörg Gunnarsdóttir ver vel strax eftir tvær mínútur og stuttu síðar er hún á undan sóknarmanni og hirðir boltann af tánum á henni.

Það er útlit fyrir sama hörkuleikinn í seinni hálfleiknum.  Íslenska liðið gefur ekkert eftir og er ekki minna með boltann.  Það er örlítið meiri sóknarbroddur í því bandaríska og fengu tvær hornspyrnur á fyrstu 5 mínútunum sem ekkert varð úr.

Efsta lið heimslistans sækir meira þessa stundina en Guðbjörg er vel á verði í markinu og með vel vakandi varnarlínu fyrir framan sig.  Guðbjörg þurfti að taka á stóra sínum á 58. mínútu þegar hún varði vel úr opnu færi.

Fyrri hálfleikur var leikinn fast og, ef eitthvað er, þá er síðari hálfleikur leikinn fastar.  Þetta á reyndar ágætlega við íslenska liðið enda engir aukvisar þar á ferðinni.

Rakel Hönnudóttir kemur inn fyrir Hólmfríði Magnúsdóttur á 63. mínútu.  Engin meiðsli þar á ferðinni heldur bara venjuleg skipting.

Á 70. mínútu fékk Erna B. Sigurðardóttir gult spjald fyrir brot og dæmd aukaspyrna á íslenska liðið 5 metrum fyrir utan vítateig.  Skotið fór í vegginn og frákastinu náðu Bandaríkjamenn en skutu hátt yfir.

Besta færi Íslands í seinni hálfleik kemur á 72. mínútu.  Margrét Lára kemst í gegn en varnarmenn ná að bjarga í horn á síðustu stundu.  Dóra María fékk boltann eftir hornspyrnuna en markvörður Bandaríkjanna varði vel.

Á 73. vildu Íslendingar fá vítaspyrnu þegar þeir vildu meina að boltinn hefði verið handleikinn innan vítateigs.  Þýski dómarinn dæmdi ekkert og bandríska liðið geystist í sókn en Guðbjörg varði vel úr góðu færi.  Líf og fjör þessar mínúturnar.

Rakel er við það að sleppa í gegn af miklu harðfylgi en varnarmenn komast fyrir á síðustu stundu.

Það eru 10 mínútur eftir af leiknum og allt í járnum.  Aðeins farið að draga af okkar liði og stelpurnar gefa sér góðan tíma í öll föst leikatriði.  Gríðarleg barátta allan leikinn farinn að segja aðeins til sín.

Engu munaði að Rakel næði boltanum á undan markverði Bandaríkjanna á 82. mínútu en markvörðurinn kom boltanum frá á síðustu stundu eftir langa sendingu.

Á 85. mínútu er Guðbjörg enn vandanum vaxinn í markinu eftir góða sókn.

Það eru 3 mínútur eftir af venjulegum leiktíma

0-1 Bandaríkin

Mark á 89. mínútu sem Bandaríkin skora, þvílík vonbrigði!!  Markið laglegt, skot utarlega út teignum í markhornið og Guðbjörg átti ekki möguleika.

Lítið eftir og íslenska liðið leggur allt í sölurnar.  Tveimur mínútum bætt við í viðbótartíma.

Leiknum lokið með sigri Bandaríkjanna, 0-1.  Íslensku leikmennirnir eru gríðarlega vonsviknir, vægast sagt.