• mið. 04. mar. 2009
  • Landslið

Frábær byrjun á Algarve

Byrjunarlið Íslands gegn Noregi á Algarve 2009.  Sigur vannst í leiknum 3-1 með mörkum frá Söru Björk Gunnarsdóttur 2 og sjálfsmarki
Byrjunlid_Noregur_Algarve_2009

Íslenska kvennalandsliðið byrjaði þátttöku sína í B riðli Algarve Cup 2009 með frábærum hætti þegar sigur vannst á Noregi með þremur mörkum gegn einu.  Eftir að staðan hafði verið jöfn í leikhléi, 1 - 1, tók íslenska liðið öll völd á vellinum og bar verðskuldaðan sigur úr býtum.  Þetta er í fyrsta skiptið í sex tilraunum sem Ísland vinnur Noreg í A landsleik kvenna en einu sinni höfðu þjóðirnar skilið jafnar, 2 - 2, árið 1984.

Íslenska liðið byrjaði af krafti og Sara Björk Gunnarsdóttir skoraði fyrsta mark leiksins á 16. mínútu eftir aukaspyrnu frá Eddu Garðarsdóttur.  Norska liðið komst betur inn í leikinn er leið á hálfleikinn og fengu dæmda vítaspyrnu á 28. mínútu en skutu yfir.  Þær jöfnuðu svo leikinn á 39. mínútu.  Þannig var staðan þegar japanski dómarinn blés til leikhlés.

Íslensku stelpurnar tóku svo öll völd í byrjun seinni hálfleiks og gerðu út um leikinn á fyrstu átta mínútunum.  Sara Björk var aftur á ferðinni á 51. mínútu og skoraði af stuttu færi eftir sendingu frá Hólmfríði Magnúsdóttur.  Tveimur mínútum síðar átti Margrét Lára Viðarsdóttir skalla að marki eftir aukaspyrnu Eddu og af leikmanni Noregs endaði boltinn í netmöskvunum.

Bæði lið fengu færi sem eftir lifði leiks en færi íslenska liðsins voru fleiri og betri.  Katrín Jónsdóttir átti t.d. skot sem hafnaði í slánni og Hólmfríður vippaði boltanum yfir markvörð Norðmanna en ofan á slánna.  Besta færi Norðmanna kom á 60 mínútu þegar þær áttu skot í slá og upp úr frákastinu bjargaði Ásta Árnadóttir á marklínu.

Allir leikmenn liðsins voru tilbúniri í verkefnið og átti það líka við um þá leikmenn sem komu inn sem varamenn.  Frábær byrjun á Algarve en ærin verkefni framundan og á föstudaginn eru mótherjarnir Bandaríkmamenn sem lögðu Dani í dag með tveimur mörkum gegn engu.

Riðill Íslands