Öll 24 félögin búin að skila fjárhagsgögnum
Leyfisstjórn hefur nú móttekið fjárhagsgögn frá öllum félögunum 24 sem undirgangast leyfiskerfið, þ.e. öllum félögum í efstu tveimur deildum karla. Öll skiluðu gögnum innan settra tímamarka, flest innan tímamarkanna 20. febrúar, en fimm félög fengu þó frest til 24. febrúar og stóðust öll þann frest.
Gögnin sem félögin skila núna eru ársreikningar með viðeigandi fylgiskjkölum og staðfestingum, t.d. á að engin vanskil séu við leikmenn eða þjálfara, eða við önnur knattspyrnufélög vegna félagaskipta leikmanna.
Leyfisstjórn mun nú fara yfir gögnin og gera tillögur um úrbætur þar sem við á. Leyfisráð kemur síðan saman í annarri viku mars til ákvarðanatöku.
Félögin 24 munu öll njóta kr. 250.000 framlags frá KSÍ, samkvæmt ákvörðun stjórnar frá 15. janúar, og hafa því félögin tryggt sér heildargreiðslu að upphæð kr. 500.000 vegna vinnu við leyfiskerfið, þar sem öll félögin stóðust þau tímamörk sem sett voru.