Stóri skiladagurinn er runninn upp
20. febrúar er stór skiladagur í leyfiskerfinu, en það er lokaskiladagur fjárhagslegra leyfisgagna. Sá dagur er í dag. Fimm félög hafa þegar skilað fjárhagsgögnum sínum - FH, Keflavík, Stjarnan, Valur og Haukar.
Á meðal gagna sem félögin eiga að skila í dag er endurskoðaður ársreikningur, sem er algjör lykilforsenda þess að félag geti fengið þátttökuleyfi. Einnig skila félögin ýmsum staðfestingum, m.a. staðfestingum á að engin vanskil séu við önnur félög vegna félagaskipta leikmanna og að engin vanskil séu við leikmenn og þjálfara.
Félög sem skila endurskoðuðum ársreikningi innan tímamarka, ásamt fylgigögnum, hljóta greiðslu frá KSÍ að upphæð kr. 250.000, skv. samþykkt stjórnar KSÍ frá 15. janúar.
Félög sem ekki skila gögnum innan tímamarka sæta viðurlögum skv. neðangreindu.
Úr leyfishandbók KSÍ:
2.2.3.2 Tímamörk ekki uppfyllt
Ef leyfisumsækjandi uppfyllir ekki sett tímamörk um framlagningu leyfisgagna skal hann sæta viðurlögum. Við ákvörðun þeirra skal taka mið af alvarleika brotsins. Eftirfarandi viðurlögum er hægt að beita:
1) Viðvörun og sekt; við fyrsta brot skal beita dagsektum að upphæð kr 1.500 fyrir hvern dag sem líður þangað til viðeigandi gögnum hefur verið skilað, að hámarki kr 30.000.
2) Áminning og sekt; við ítrekað brot skal skal beita dagsektum að upphæð kr 3.000 fyrir hvern dag sem líður þangað til viðeigandi gögnum hefur verið skilað, að hámarki kr 60.000.
3) Stigatap; við alvarlegt og ítrekað brot er jafnframt heimilt að draga allt að 3 stig frá félaginu í deildarkeppninni.
Ítrekunarkvöð fellur niður ef tímamörk hafa verið uppfyllt í 3 ár samfleytt.
Fylgst verður með gangi mála hér á ksi.is.