Njarðvíkingar skila fjárhagsgögnum
Njarðvíkingar hafa skilað inn fjárhagslegum leyfisgögnum sínum, þ.e. endurskoðuðum ársreikningi og viðeigandi staðfestingum. Njarðvíkingar leika í 2. deild, en taka engu að síður þátt í leyfisferlinu skv. ósk forráðamanna félagsins. Leyfisstjórn mun þannig fara yfir gögn Njarðvíkur, meta þau og gera viðeigandi athugasemdir eins og gert er við gögn þeirra félaga sem leika í efstu tveimur deildunum, þar sem leyfiskerfið er keyrt af fullum krafti.
Njarðvík var í 1. deild árin 2007 og 2008 og undirgekkst þá leyfiskerfið. Félagið stóð sig með miklum sóma á þessu sviði og forráðamenn félagsins tóku þá ákvörðun að starfa áfram eftir þeim ramma sem leyfiskerfið setur. Þannig er ákveðnum vinnuferlum og ákveðnu gæðastarfi viðhaldið. Þegar Njarðvíkingar snúa svo aftur í 1. deild seinna meir eru þeir klárir í slaginn fyrir það leyfisferli.
Þess má geta að félög sem falla úr 1. deild eru varafélög ef til þess kemur að lið í 1. deild fær ekki þátttökuleyfi. Njarðvík hafnaði í 11. sæti 1. deildar 2008 og er því varafélag ef eitthvað af þeim 12 félögum sem sækja um þátttökuleyfi í 1. deild 2009 fær synjun.