Í knattspyrnu á kúskinnsskóm
Vert er að vekja athygli á því að á safnanótt, föstudaginn 13. febrúar, verður fluttur fyrirlestur í Borgarskjalasafni kl. 21.00 sem nefnist "Í knattspyrnu á kúskinnsskóm".
Í fyrirlestrinum mun Þórarinn Björnsson, skjalavörður á Borgarskjalasafni, fjalla á myndrænan hátt um heimildir sem varpa nýju ljósi á frumbernsku knattspyrnuiðkunar Íslendinga.
Rætt verður um skrautlegan fótabúnaðinn, fyrstu boltana, elstu varðveittu lög íslensks knattspyrnufélags og sitthvað fleira. Sérstök áhersla verður lögð á upphaf Vals og KR og tengsl þeirra félaga við séra Friðrik Friðriksson og KFUM. Færð verða rök fyrir því að á tímabili hafi KFUM tekið KR í fóstur og til sýnis verða nokkur skjöl því til stuðnings.
Einnig verða sýnd nokkur af elstu varveittu skjölum Vals sem ekki hafa áður sést opinberlega.
Fyrirlesturinn fer fram í húsakynnum Borgarskjalasafns á 3. hæð í Grófarhúsinu við Tryggvagötu (sama hús og Borgarbókarsafn er í).
Allir velkomnir og aðgangur ókeypis.