• mið. 11. feb. 2009
  • Landslið

Byrjunarlið Íslands gegn Liechtenstein

Byrjunarliðið gegn Noregi í Osló, 6. september 2008.  Mynd: Hörður Snævar Jónsson á fotbolti.net
Byrjunarlidid_gegn_Noregi_sept_2008

Ólafur Jóhannesson, landsliðsþjálfari, hefur tilkynnt byrjunarlið sitt er mætir Liechtenstein í vináttulandsleik í dag.  Leikurinn fer fram á La Manga á Spáni og hefst kl. 15:00 að íslenskum tíma.

Aðstæður eru ágætar á La Manga núna þegar stutt er í leik.  Það er heiðskírt og 16 stiga hiti.  Allnokkur hliðarvindur er á vellinum sem gæti haft áhrif á leikinn.

Ísland - Liechtenstein

Íslenska liðið byrjar leikinn af krafti og á fyrstu fimm mínútunum fá þeir Emil Hallfreðsson og Arnór Smárason ágætis marktækifæri en í bæði skiptin fer boltinn rétt framhjá marki Liechtenstein.

Íslenska liðið hefur ráðið ferðinni fyrstu 15 mínúturnar.   Mótherjarnir hugsa fyrst og fremst um varnarleikinn og freista þess að beita skyndisóknum sem hafa ekki margar litið dagsins ljós á fyrstu mínútunum.  Þeir komust þó inn í vítateig Íslendinga á 13. mínútu en Hermann Hreiðarsson komst fyrir skot þeirra.

Góður hópur Íslendinga er á vellinum í La Manga og láta í sér heyra.  Boltinn gengur vel á milli manna hjá íslenska liðinu og leikurinn fer nánast einvörðungu fram á vallahelmingi Liechtenstein.

Besta færi leiksins kom nú á 24. mínútu þegar að Arnór Smárason komst einn innfyrir en skot hans fór yfir.

1-0 fyrir Ísland

Arnór Smárason var að koma Íslendingum yfir.  Eiður Smári Guðjohnsen lék vörn Liechtenstein grátt, sendi boltann á Emil sem átti skot sem markvörðurinn varði.  Arnór fylgdi vel á eftir og setti boltann í netið á 28. mínútu.

Arnór hafði verið aðgangsharður upp við mark mótherjanna og skoraði sitt fyrsta A landsliðmark í sínum fjórða landsleik.

Forystan er fyllilega verðskulduð enda hefur íslenska liðið stjórnað leiknum frá byrjun og verið mun aðgangsharðara.

Íslenska liðið heldur áfram aðgangshörku við mark mótherjanna og hafa verið líklegir við að bæta við öðru markinu.  Leikmenn Liechtenstein hafa þó fært sig heldur framar á völlinn síðustu mínútur en yfirhöndin er Íslendinga þegar fimm mínútur eru eftir af fyrri hálfleik.

Flautað hefur verið til leikhlés og Íslendingar hafa eins marks forystu.  Eiður Smári fékk 2 ágætis færi á lokamínútum hálfleiksins sem ekki nýttust.  Árni Gautur átti náðugan dag í markinu en hann skiptir við Gunnleif Gunnleifsson sem mun standa í markinu í síðari hálfleik.

2-0 fyrir Ísland

Eiður Smári var að skora glæsilegt mark beint úr aukaspyrnu af um 23 metra færi eftir aðeins tveggja mínútna leik í síðari hálfleik.  Hann sneri boltann yfir vegginn frá vítateigshorninu og markvörður mótherjanna reyndi ekki að ná til boltans, átti aldrei möguleika.

Þegar 15 mínútur eru liðnar af síðari hálfleik gerir Ólafur Jóhannesson þrjár breytingar.  Inn á völlinn koma þeir Sölvi Geir Ottesen, Pálmi Rafn Pálmason og Theodór Elmar Bjarnason.  Þeir koma í stað Hermanns Hreiðarssonar, Emils Hallfreðssonar og Brynjars Björns Gunnarssonar.  Brynjar átti fyrir stuttu frábært skot úr miðjuhringnum sem markvörður Liechtenstein varði naumlega en hann stóð framarlega í vítateignum en náði að komast fyrir boltann.  Íslenska liðið heldur upp mikilli pressu að marki Liechtenstein.

Á 70. mínútu fer Aron Einar Gunnarsson af velli og í hans stað kemur Helgi Valur Daníelsson inná.  Íslenska liðið sækir og sækir og hefur skapað sér fín marktækifæri sem ekki hafa nýst.  Á 72. mínútu komst t.a.m. Eiður Smári einn í gegn en markvörður mótherjanna varð vel.  Gunnleifur hefur komið einu sinni við boltann í síðari hálfleiknum sem sýnir hveru miklir yfirburðir íslenska liðsins hafi verið til þessa.

Bjarni Ólafur Eiríksson var að koma inn á í stað Indriða Sigurðssonar á 79. mínútu.  Að sögn hins stimamjúka búningastjóra, Björns Ragnars Gunnarssonar, eru yfirburðir Íslendinga miklir og ótrúlegt að mörkin hafi ekki verið fleiri.

Færeyski dómarinn hefur flautað til leiksloka og lokatölur urðu 2-0 Íslendingum í vil.  Íslenska liðið réð lögum og lofum á vellinum á La Manga í dag og voru óheppni að bæta ekki við fleiri mörkum en markvörður Liechtenstein átti stórleik í dag.

Næsti leikur íslenska liðsins er vináttulandsleikur gegn Færeyjum, sunnudaginn 22. mars í Kórnum.

Byrjunarliðið:

Markvörður: Árni Gautur Arason

Hægri bakvörður: Grétar Rafn Steinsson

Vinstri bakvörður: Indriði Sigurðsson

Miðverðir: Ragnar Sigurðsson og Hermann Hreiðarsson, fyrirliði

Tengiliðir: Aron Einar Gunnarsson og Brynjar Björn Gunnarsson

Sóknartengiliður: Eiður Smári Guðjohnsen

Hægri kantur: Birkir Már Sævarsson

Vinstri kantur: Emil Hallfreðsson

Framherji: Arnór Smárason