• þri. 10. feb. 2009
  • Landslið

Vináttulandsleikur gegn Georgíu í september

Sigurmarki Íslendinga gegn Norður Írlandi vel fagnað
Marki_fagnad_N_Irland

Knattspyrnusambönd Íslands og Georgíu hafa komist að samkomulagi um að karlalandslið þjóðanna leiki vináttulandsleik á Laugardalsvelli miðvikudaginn 9. september næstkomandi.

Þetta er í fyrsta skipti sem þjóðirnar mætast á þessum vettvangi en leikurinn kemur í kjölfar leiks Íslands og Noregs í undankeppni HM 2010 sem fer fram laugardaginn 6. september á Laugardalsvelli. 

Georgíumenn leika sama laugardag heimaleik gegn Ítölum í undankeppni HM 2010 en þessar þjóðir eru í 8. riðli ásamt Írlandi, Svartfjallalandi, Búlgaríu og Kýpur.  Georgía hefur hlotið 2 stig til þessa í riðlinum eftir fjóra leiki.  Gerðu jafntefli við Kýpur og Búlgaríu heima en biðu lægri hlut gegn Ítölum á útivelli og Írum en sá leikur var leikinn í Mainz í Þýskalandi vegna óstöðugs ástands í Tiblisi.