Kvennalandsliðið leikur gegn Englandi og Danmörku
Íslenska kvennalandsliðið leikur tvo vináttulandsleiki í júlí og má segja að þessir leikir verði lokahnykkurinn í undirbúningi fyrir úrslitakeppni EM í Finnlandi. Leikið verður við England 16. júlí og Danmörku 19. júlí. Báðir leikirnir verða leiknir í Englandi.
Áður var fyrirhugaður leikur við Dani í Kaupmannahöfn en leikurinn hefur verið færður til Englands. Englendingar og Danir mætast svo 22. júlí en báðar þessar þjóðir eru á meðal þátttakenda í úrslitakeppninni í Finnlandi, líkt og Íslendingar, sem hefst 23. ágúst.
Íslendingar og Danir hafa aðeins mæst tvisvar sinnum hjá A landsliði kvenna og voru það hvort tveggja vináttulandsleikir. Danir fóru með sigur af hólmi í bæði skiptin. Árið 1996 sigruðu Danir 3-0 og 1997 urðu úrslitin 4-1 og var það Sigrún Óttarsdóttir er skoraði mark Íslands í þeim leik.
Kvennalandslið Íslands og Englands hafa mæst níu sinnum og enn hafa Íslendingar ekki náð að fara með sigur af hólmi. Þær ensku hafa sigrað í átta leikjum en einu sinni hafa þjóðirnar skilið jafnar. Var það árið 2002 í aukaleikjum um sæti á HM og lauk leiknum á Laugardalsvelli með jafntefli, 2-2.
Íslenska kvennalandsliðið mun því mæta mörgum af sterkustu þjóðum heims í undirbúningi sínum fyrir Evrópukeppnina en í mars hefst Algarve Cup þar sem Ísland er í riðli með Noregi, Bandaríkjunum og Danmörku. Þá verður leikið við Holland í Kórnum 25. apríl.