30 þjálfarar luku KSÍ VI þjálfaranámskeiði í Lilleshall
Dagana 16. - 23. janúar stóð Knattspyrnusamband Íslands fyrir 6. stigs þjálfaranámskeiði í Lilleshall á Englandi. 30 þjálfarar sátu námskeiðið að þessu sinni.
Fyrsta verkefni hópsins var að leikgreina leik Bolton og Manchester United í ensku úrvalsdeildinni. Þrír erlendir kennarar héldu fyrirlestur á námskeiðinu. Andy Cale hélt fyrirlestur um uppbyggingu liðs, Dick Bate hélt mjög áhugaverðan fyrirlestur um hvernig knattspyrnan verði í framtíðinni og John Peacock hélt fyrirlestur um skyndisóknir.
Til stóð að fá Mick Halsall, þjálfara unglingaliðs Walsall, í heimsókn og stýra einni æfingu en honum var því miður sagt upp störfum degi áður en stóð til að fá hann og því varð ekkert úr heimsókninni.
Síðasta daginn heimsótti hópurinn Íslendingaliðið Reading F.C. Þar fékk hópurinn tækifæri til að horfa á æfingu aðalliðsins og að henni lokinni sátu Íslendingarnir Ívar Ingimarsson og Gylfi Sigurðsson fyrir svörum. Einnig fékk hópurinn að hitta þjálfara úr unglingaakademíu félagsins og spurja þá spjörunum úr. Til stóð að horfa á æfingu með unglingaliði Reading en vegna rigningar var ákveðið á síðustu stundu að unglingaliðið skyldi æfa annarsstaðar en á æfingasvæði félagsins.
Ferðin þótti heppnast ágætlega þrátt fyrir óviðráðanleg forföll á fyrirhuguðum dagskrárliðum námskeiðsins, sem greint hefur verið frá hér á undan. Fræðslusvið KSÍ vill koma á framfæri þakklæti skemmtilegt námskeið til kennara og allra þeirra sem sátu námskeiðið.