Tveir þriðju hlutar Landsbankadeildarfélaga komnir
Breiðablik hefur nú skilað sínum leyfisgögnum og hafa þá tveir þriðju hlutar Landsbankadeildarfélaga skilað, eða átta af tólf félögum. Þau félög sem eiga eftir að skila eru Fram, Grindavík, ÍBV og Þróttur.
Gögnin sem félögin skila nú snúa að mannvirkjaþáttum, lagalegum þáttum, starfsfólki og stjórnun, og knattspyrnulegum þáttum, s.s. uppeldi ungra leikmanna.
Félögin geta skilað gögnum til KSÍ með ýmsum hætti - hægt er að fara með gögnin á skrifstofu KSÍ og afhenda leyfisstjórn, gögnin má faxa eða senda með tölvupósti (skönnuð þar sem við á), og þá má einnig senda þau með pósti.
Ef gögnin eru send með pósti þarf stimpillinn að sýna sendingardag, og ef sendingardagurinn er innan tímamarka sleppa menn við dagsektir.