Njarðvíkingar skila leyfisgögnum
Njarðvíkingar, sem leika í 2. deild í ár, hafa skilað inn leyfisgögnum. Njarðvík féll úr 1. deild síðasta haust eins og kunnugt er, og þar með úr leyfiskerfinu, en forsvarsmenn félagsins óskuðu engu að síður eftir því að fá að undirgangast leyfisferlið fyrir árið 2009.
Njarðvíkingar hafa því skilað gögnum sem snúa að knattspyrnulegum forsendum, mannvirkjaþáttum, lagalegum forsendum, sem og starfsfólki og stjórnun félagsins. Þeir munu jafnframt skila fjárhagslegum gögnum þegar að því kemur, en skiladagur þeirra gagna er 20. febrúar.
Þau félög sem falla úr Landsbankadeild og 1. deild eru jafnframt varafélög ef til þess kemur að leyfisumsækjanda, þ.e. félagi í þessum deildum, yrði synjað um þátttökuleyfi. Ef þessi staða kemur upp í 1. deild er ljóst að Njarðvíkingar ætla sér að vera tilbúnir.
Leyfiskerfi KSÍ er ætlað að vera gæðakerfi fyrir félögin sem undirgangast það og er markmiðið að bæta og styrkja starf félaganna á öllum sviðum. Nánar má lesa um þetta með því að smella á Um leyfiskerfið hér til vinstri á síðunni.