• mán. 12. jan. 2009
  • Fræðsla

Dagskrá KSÍ VI námskeiðsins tilbúin

John Peacock, fyrrum yfirmaður knattspyrnuakademíu Derby County, mun kenna á KSÍ VI í Lilleshall
John_Peacock

Föstudaginn 16. janúar heldur Knattspyrnusamband Íslands KSÍ VI þjálfaranámskeið á Lilleshall á Englandi. Þetta verður í þriðja sinn sem KSÍ heldur slíkt námskeið á Englandi en fyrst var það haldið árið 2004. Að þessu sinni eru 30 þátttakendur skráðir á námskeiðið og aldrei áður hefur svo stór hópur farið á KSÍ VI þjálfaranámskeið en 43 sóttu um. Farið verður út að morgni 16. janúar og komið heim að kvöldi 23. janúar.

Íslenskir kennarar á námskeiðinu verða Ólafur Kristjánsson, Gunnar Guðmundsson, Logi Ólafsson og Sigurður Ragnar Eyjólfsson. En auk þeirra munu nokkrir enskir kennarar heimsækja hópinn. Erlendir kennarar eru fjórir að þessu sinni eða einum fleiri en á síðasta KSÍ VI þjálfaranámskeiði. Má þar nefna John Peacock, yfirmann enska Pro Licence þjálfaranámskeiðsins en hann kennir einnig á því námskeiði, Dick Bate sem einnig kennir á enska Pro Licence þjálfaranámskeiðnu og Andy Cale, doktor í íþróttasálfræði og íþróttasálfræðingur enska knattspyrnusambandsins. Auk þeirra mun Mick Halsall, þjálfari unglingaliðs Walsall, vera með sýnikennslu í sóknarleik.

Þá mun hópurinn fara á leik Bolton og Manchester United í Ensku úrvalsdeildinni en eitt af verkefnum námskeiðsins verður að leikgreina þann leik og þá er einnig von á unglingaliði Walsall. Unglingalið Walsall kom einnig á síðasta KSÍ VI þjálfaranámskeið sem haldið var 2006 og mæltist það mjög vel fyrir. Síðasta daginn mun svo hópurinn heimsækja Íslendingaliðið Reading og kynna sér aðstæður þar á bæ.

Dagskrá þjálfaranámskeiðsins og þátttakendalisti er hér fyrir neðan.

Dagskrá og þátttakendur