Um áramót
Ársins 2008 verður kannski fyrst og fremst minnst hjá íslenskum íþróttamönnum fyrir góðan árangur í hópíþróttum, silfur á Ólympíuleikum í handknattleik og landslið kvenna í knattspyrnu tryggði sér sæti í úrslitakeppni EM fyrst landsliða Íslands. Árið var jafnframt ár nokkurra breytinga í íslenskri knattspyrnu þar sem fjölgað var liðum í landsdeildum karla og kvenna auk þess sem skipulagsbreytingar voru gerðar á VISA bikarkeppni karla. Þær breytingar sem gerðar voru tókust afar vel og ljóst að áhorfendur jafnt sem knattspyrnumenn tóku þeim fagnandi. Átak var gert bæði í fræðslumálum þjálfara og dómara og verður áfram unnið á sömu braut í þeim efnum. Má í því sambandi nefna að staðfest hefur verið að mælt verður með inngöngu KSÍ að dómarasáttmála UEFA í byrjun næsta árs og skrifað hefur verið undir samkomulag á milli KSÍ, UEFA og enska knattspyrnusambandsins um þátttöku þjálfara KSÍ á pro-licence námskeiðum þjálfara hjá enska sambandinu.
Árið hefur verið viðburðaríkt og starfsemin sífellt að aukast knattspyrnunni í landinu til framdráttar. Í íslensku samfélagi eru þó blikur á lofti og ljóst að það óvissuástand sem nú ríkir í efnahagsmálum þjóðarinnar mun hafa mikil áhrif á knattspyrnuhreyfinguna og íþróttahreyfinguna alla. Við slíkar aðstæður er mikilvægt að við tökum höndum saman og stöndum vörð um grasrótarstarf aðildarfélaganna og allt það mikilvæga félagslega hlutverk sem félögin sinna. Ekki er síður mikilvægt að standa vörð um afrekslið félaganna því að þar finnum við fyrirmyndir æskunnar. Knattspyrnusamband Íslands hefur þegar samþykkt að styðja við félögin við þessar aðstæður með auknum fjárframlögum og unnið er að því innan sambandsins í samráði við okkar aðildarfélög að finna leiðir til enn frekari stuðnings við starf þeirra. KSÍ hefur jafnframt hvatt sveitarfélög til þess að starfa enn frekar með aðildarfélögunum til þess að auðvelda þeim að sinna sínu mikilvæga hlutverki og hafa all nokkur sveitarfélög þegar orðið við þeirri hvatningu með aukinni þátttöku í starfi félaganna.
Þrátt fyrir að margir horfi nú til erfiðari tíma um sinn þá má ekki gleyma því að slíkt ástand getur einnig skapað aðstæður fyrir ný tækifæri og endurskipulagningu í okkar starfsemi. Gæta verður aðhalds og forgangsraða verkefnum að einhverju leyti upp á nýtt, leggja mikla áherslu á uppbyggingarstarf sem getur skilað okkur árangri til lengri tíma litið og endurskipuleggja að hluta til rekstur.
Framundan er nýtt ár við nánast áður óþekktar aðstæður í íslensku samfélagi. Ég veit að knattspyrnuhreyfingin mun takast á við þær aðstæður með jákvæðum hætti og sinna sínu hlutverki af sama krafti og áður. Með hækkandi sól fer boltinn að rúlla að nýju og engin vafi á að árið 2009 mun bjóða upp á spennandi tíma í knattspyrnunni.
Ég vil þakka aðildarfélögum KSÍ fyrir öflugt starf á árinu 2008 sem og öllum þeim fjölda sjálfboðaliða sem starfa innan þeirra raða og halda íslenskri knattspyrnu gangandi. Ég sendi stuðningsmönnum, samstarfsaðilum, forystumönnum, leikmönnum, þjálfurum, dómurum og öðrum þátttakendum í íslenskri knattspyrnu góða kveðju með ósk um gott og heillaríkt nýtt ár.
Geir Þorsteinsson,
formaður KSÍ