Íslenskir þjálfarar fá aðgang að Pro licence í Englandi
Enska knattspyrnusambandið samþykkti í dag að veita þjálfurum á Íslandi aðgang að Pro licence þjálfaranámskeiði sínu. Pro þjálfaragráðan er viðurkennd í öllum löndum Evrópu, er æðsta stig þjálfaramenntunar sem UEFA samþykkir og veitir réttindi til að þjálfa öll lið í öllum deildum í Evrópu. Möguleiki er á því að tveir þjálfarar frá Íslandi geti komist strax á næsta Pro licence námskeið en Enska knattspyrnusambandið mun velja inn á það strax um miðjan janúar.
Af þessu tilefni mun KSÍ halda sérstakan kynningarfund um Pro licence námskeið Enska knattspyrnusambandsins laugardaginn 13. desember næstkomandi klukkan 13:00 í höfuðstöðvum KSÍ. Fundurinn er öllum opinn og aðgangur er ókeypis. Þar verður nánara fyrirkomulag á námskeiðinu útskýrt, farið verður yfir hvaða kröfur eru gerðar til umsækjenda og þátttakenda á námskeiðinu og umsóknarferlið kynnt.
Einungis um 120 þjálfarar hafa lokið Pro licence gráðu Enska knattspyrnusambandsins. Sigurður Ragnar Eyjólfsson fræðslustjóri KSÍ lauk við Pro gráðuna í sumar, en Guðjón Þórðarson knattspyrnuþjálfari er í þessu námi núna og mun væntanlega útskrifast næsta sumar.
Nánari upplýsingar veitir Sigurður Ragnar Eyjólfsson fræðslustjóri KSÍ (siggi@ksi.is).