• þri. 02. des. 2008
  • Fræðsla

Hópur kynnti sér knattspyrnu kvenna í Finnlandi

Hópur frá þeim félögum er leika í Landsbankadeild kvenna 2009 fór til Finnlands og kynnti sér starf í kringum knattspyrnu kvenna þar í landi
Finnlandshopur

Dagana 25.-28. nóvember hélt 11 manna hópur frá Íslandi til Finnlands í þeim tilgangi að kynna sér knattspyrnu kvenna þar í landi. Hópurinn var skipaður fulltrúum liðanna sem leika í Landsbankadeild kvenna á næsta ári auk Ólafs Þórs Guðbjörnssonar sem fór fyrir hönd Knattspyrnusambands Íslands í ferðina.

Fyrsta daginn fór Jarmo Matikainen, fræðslustjóri finnska knattspyrnusambandsins, yfir þróunina sem átt hefur sér stað í knattspyrnu kvenna í Finnlandi undanfarin ár. Daginn eftir var haldið í heimsókn í íþróttaskólann í Mäkelänrinne þar sem aðstaðan var skoðuð og einnig kynnig á akademíunni sem þar er starfrækt. Síðar þann sama dag fór hópurinn til Eerikkilä þar sem fylgst var með leik Finnlands og Wales, skipuð leikmönnum 16 ára og yngri.

Daginn fyrir heimför sat hópurinn fyrirlestur um lokakeppni EM sem haldin verður í Finnlandi á næsta ári en Finnar hyggjast nýta sér keppnina til hins ýtrasta í að kynna knattspyrnu kvenna. Eftir það var haldið í heimsókn til finnska félagsins FC Honka þar sem hópurinn fékk að kynnast starfsemi félagsins og fylgjast með æfingu hjá aðalliðinu.

Ásamt íslenska hópnum voru hópar frá Norður-Írlandi og Tékklandi þarna á sama tíma en íslenski hópurinn samanstóð af eftirfarandi aðilum:

Bjarki Már Sverrisson – Afturelding

Björn Kr. Björnsson – Fylkir

Dragan Stojanovic – Þór/KA

Elvar Grétarsson – Keflavík

Freyr Alexandersson – Valur

Gareth O’Sullivan – KR

Gary Wake – Breiðablik

Gunnar Magnús Jónsson – GRV

Halldór Halldórsson – ÍR

Páll Árnason – Stjarnan

Ólafur Þór Guðbjörnsson – fyrir hönd KSÍ

“Það var fróðlegt fyrir okkur að sjá uppbygginguna á knattspyrnu kvenna í Finnlandi og hvernig þeir ætla að nýta sér Evrópukeppnina næsta sumar til að efla knattspyrnu kvenna þar í landi.” – Ólafur Þór Guðbjörnsson

“Ég held að það sé óhætt að segja að það sem stóð upp úr í ferðinni er gríðarlega góð vinna hjá Finnska knattspyrnusambandinu í grasrótarstarfinu.
Mjög vel og skipulega er haldið utan um öll yngri landslið sambandsins og skýr og metnaðarfull stefna í góðum farvegi hjá öllum aldurshópum.
Held að það sé óhætt að segja að í þessu getum við lært af frændum okkar Finnum enda hafa þeir sett sér háleit markmið með þá aldurshópa sem að eru í áætlunum þeirra yngri landsliða sem er verið að vinna með.
Annað sem var gott og áhugvert var framhaldsskólakerfið og tenging á milli knattspyrnuakademíunnar í skólanum og finnska sambandsins. Uppsetningin á náminu og hvernig nemendum var gert kleyft að nýta skólakerfið til að hámarka þjálfun sína á framhaldsskóla árunum.
Að öðru leiti voru það fagmannlegar og opinskáar umræður á milli ferðafélaganna sem skiluðu hvað mestu á milli manna, enda einstaklega hress hópur á ferð.”
Freyr Alexandersson

“Þetta var þétt dagskrá alla dagana og dagskráin stóðst fullkomnlega tímalega séð. Var nokkuð sáttur við þá punkta sem ég fékk en langur tími fór í að kynna F.U.N prógram þeirra sem var liður í því að efla þátttöku kvenna í fótbolta. Einnig fengum við að sjá æfingaaðstöðu sem er nokkuð góð miðað við veðurfar í Finnlandi. Einnig voru þeir uppteknir við að sýna okkur íþróttabrautir í skólum en þar eru þeir komnir langt á undan okkur Íslendingum. Fyrir mig sem þjálfara fékk ég kannski ekki marga punkta en fyrir mig sem starfsmann Aftureldingar eru margir punktar sem við getum notað til þess að efla þátttöku stelpna í yngri flokkum félagsins. Fengum að sjá æfingu hjá U17 liði og aðalliði meistaraflokks kvenna hjá FC Honka. Þar voru nokkrir punktar sem nýtast mér.”Bjarki Már Sverrisson

“Fyrirlestrarnir voru aðallega um eitthvað sem við vissum fyrir og gáfu okkur ekki mikið og minnti þetta flest allt á auglýsingarherferð. Fróðlegastur var seinasti dagurinn og mér fannst það sitja mest eftir. Annars fannst mér lang öflugast að tala við hina þjálfarana, skiptast á skoðunum og fróðleik. Ræða um stöðu kvennaboltans á Íslandi og hvað við getum gert til að hjálpa til við að halda okkur í fremstu röð.”Páll Árnason