Vináttulandsleikur við Dani 19. júlí
Knattspyrnusambönd Íslands og Danmerkur hafa komist að samkomulagi um að kvennalandslið þjóðanna mætist í vináttulandsleik 19. júlí á næsta ári og verður leikið í Kaupmannahöfn eða nágrenni. Leikur þessi er liður þjóðanna í undirbúningi fyrir úrslitakeppni EM kvenna 2009 en hún fer fram í ágúst og september.
Kvennlandsliðið mun einnig leika á hinu geysisterka Algarvemóti er fer fram í mars og unnið er að því að fá fleiri undirbúningsleiki. Er að vænta frétta af fleiri verkefnum á næstu dögum.
Danir leika í A riðli úrslitakeppninnar í Finnlandi og eru þar í riðli með heimastúlkum, Úkraínu og Hollandi. Íslendingar eru í B riðli ásamt Þjóðverjum, Norðmönnum og Frökkum.
Íslendingar og Danir hafa aðeins mæst tvisvar sinnum hjá A landsliði kvenna og voru það hvort tveggja vináttulandsleikir. Danir fóru með sigur af hólmi í bæði skiptin. Árið 1996 sigruðu Danir 3-0 og 1997 urðu úrslitin 4-1 og var það Sigrún Óttarsdóttir er skoraði mark Íslands í þeim leik.