Hægt að horfa á leiki í HM U20 kvenna á netinu
Nú er nýhafin í Chile HM U20 kvenna í knattspyrnu en þar keppa 16 þjóðir um heimsmeistaratitilinn. Hægt er að horfa á leiki keppninnar án endurgjalds á heimasíðu FIFA, www.fifa.com sem og að einnig er hægt að horfa á helstu atriði leikja stuttu eftir að þeim er lokið.
Fjórar Evrópuþjóðir eru á meðal þátttakenda en það eru Þýskaland, England, Noregur og Frakkland. Þessar þjóðir tryggðu sér sæti í þessari keppni með því að lenda í fjórum efstu sætunum á EM 2007 en sú keppni fór fram hér á landi síðasta sumar. Þeir sem fylgdust með leikjum þeirrar keppni sjá því kunnugleg andlit á skjánum hjá sér.
Keppnin hófst í gær með fjórum leikjum og þar töpuðu Frakkar m.a. fyrir Bandaríkjunum en England, undir stjórn hinnar snjöllu Mo Marley, vann góðan sigur á gestgjöfunum í Chile fyrir framan rúmlega 15.000 áhorfendur.
Núverandi handhafar heimsmeistaratitils U20 kvenna eru Norður Kórea en knattspyrna kvenna hefur verið í gríðarlegum uppgangi þar í landi síðustu ár. Má geta þess að nýlega voru það stúlkurnar í Norður Kóreu sem urðu heimsmeistarar hjá U17 kvenna en sú keppni var leikin í Nýja Sjálandi. Unnu þær bandarískar stöllur sínar með tveimur mörkum gegn einu eftir framlengdan úrslitaleik.
Margir Íslendingar hafa aðgang að íþróttastöðinni Eurosport en margir leikir keppninnar eru sýndir í beinni útsendingu á þeirri stöð.