• mið. 19. nóv. 2008
  • Landslið

Malta - Ísland í dag kl. 13:30

Landsliðshópur Íslands gegn Aserbaídsjan
Hopurinn_gegn_Aserbaidsjan_agust_2008

Í dag kl. 13:30 að íslenskum tíma mætast Malta og Ísland í vináttulandsleik og er leikið á Möltu.  Þetta er fjórtándi landsleikur þjóðanna en Íslendingar hafa níu sinnum farið með sigur af hólmi, Möltubúar þrisvar sinnum en einu sinni hefur orðið jafntefli.  Síðast áttust þjóðirnar við á æfingamóti á Möltu fyrr á þessu ári og sigruðu þá heimamenn, 1-0.

Ólafur Jóhannesson, landsliðsþjálfari, hefur tilkynnt byrjunarlið sitt í leiknum.

Byrjunarliðið (4-5-1):

Markvörður: Gunnleifur Gunnleifsson

Hægri bakvörður: Birkir Már Sævarsson

Vinstri bakvörður: Indriði Sigurðsson

Miðverðir: Hermann Hreiðarsson, fyrirliði og Sölvi Geir Ottesen Jónsson

Tengiliðir: Helgi Valur Daníelsson og Aron Einar Gunnarsson

Hægri kantur: Arnór Smárason

Vinstri kantur: Emil Hallfreðsson

Sóknartengiliður: Veigar Páll Gunnarsson

Framherji: Heiðar Helguson

Aðstæður eru hinar ágætustu á Möltu og hópurinn í góðu standi.  Í gær fór fram hin venjubundna spurningakeppni hópsins en það er markvörðurinn Gunnleifur Gunnleifsson sem heldur utan um þá keppni.  Aftur fór það svo að eldri leikmenn fóru með sigur af hólmi, þó svo að hann hafi verið naumur í þetta skiptið.  Að þessu sinni var það lið þjálfara og starfsmanna sem urðu í öðru sæti en yngri leikmenn ráku svo lestina.  Voru þjálfarar og starfsmenn ánægðir með sitt hlutskipti enda beið liðið afhroð í síðustu keppni.  Góður undirbúningur, undir vaskri stjórn hins árrisula búningastjóra Björns Ragnars Gunnarssonar, skilaði greinilega árangri og ætlar liðið sér efsta sæti í næstu spurningakeppni.