• mið. 19. nóv. 2008
  • Landslið

Malta - Ísland - Textalýsing

Landsliðshópur Íslands gegn Aserbaídsjan
Hopurinn_gegn_Aserbaidsjan_agust_2008

Vináttulandsleikur Möltu og Íslands er hafinn en leikið er á Möltu.  Leikurinn hófst kl. 13:30 og verður fylgst við honum hér á síðunni.

Byrjunarliðið (4-5-1):

Markvörður: Gunnleifur Gunnleifsson

Hægri bakvörður: Birkir Már Sævarsson

Vinstri bakvörður: Indriði Sigurðsson

Miðverðir: Hermann Hreiðarsson, fyrirliði og Sölvi Geir Ottesen Jónsson

Tengiliðir: Helgi Valur Daníelsson og Aron Einar Gunnarsson

Hægri kantur: Arnór Smárason

Vinstri kantur: Emil Hallfreðsson

Sóknartengiliður: Veigar Páll Gunnarsson

Framherji: Heiðar Helguson

Textalýsing

Malta - Ísland 0-1

Aðstæður eru góðar en ekki rigndi í nótt eins og síðustu nætur og völlurinn er því í fínu ásigkomulagi.  Tæplega 20 stiga hiti er á leikstað og sól. 

Dómari leiksins kemur frá Ítalíu en aðstoðardómarar hans eru frá Möltu.

5. mín: Íslendingar byrja betur og fyrsta færið kemur á 5. mínútu þegar Veigar Páll á ágætis skot en markvörður Möltu ver vel.

7. mín: Fyrstu hornspyrnu leiksins fá Íslendingar en heimamenn skalla boltann frá svo engin hætta skapast.

11. mín: Möltumenn eiga álitlega sókn en tveir leikmenn þeirra dæmdir rangstæðir.

13. mín: Mjög góð sókn Íslendinga sem lýkur með því að Aron Einar á gott skot en naumlega framhjá.  Ágætis byrjun hjá okkar mönnum.

17. mín: Aftur ágætis sókn en Heiðar er dæmdur rangstæður.  Undirtökin eru Íslendinga í leiknum.  Vonandi skilar það marki.

23. mín: Heimamenn að færa sig upp á skaftið.  Þeir fá hornspyrnu en það er engum vandkvæðum bundið að skalla þá tuðru frá.

24. mín: Íslenska liðið brunar í sókn og fær hornspyrnu.  Emil tekur spyrnuna og heimamenn ná að bjarga naumlega á marklínu.

30. mín: Emil Hallfreðsson með gott skot beint úr aukaspyrnu en markvörður heimamanna er vel á verði.

35. mín: Íslenska liðið sækir mikið þessa stundina en ná ekki að skapa mikið af opnum marktækifærum.

Dómari leiksins hefur flautað til hálfleiks.  Íslenska liðið hefur sótt töluvert meira en ekki skapað sér nóg af dauðafærum.

Ólafur Jóhannesson gerir tvær breytingar í hálfleik.  Árni Gautur Arason kemur í markið í stað Gunnleifs Gunnleifssonar og Pálmi Rafn Pálmason kemur í stað Veigars Páls Gunnarssonar.

Seinni hálfleikur er hafinn

47. mín: Leikmaður Möltu fellur í teignum en ítalski dómarinn er í góðri aðstöðu og dæmir ekkert. 

51. mín: Íslenska liðið virðist vera að ná sömu undirtökum og í fyrri hálfleiknum en en ná ekki að skapa sér dauðafærin.  Þau hljóta að koma.

53. mín:  Tvö gul spjöld líta dagsins ljós.  Brotið er á Heiðari Helgusyni sem ýtir við leikmanninum.  Báðir fá að líta gula spjaldið.

54. mín: Íslendingar vilja fá dæmda vítaspyrnu þegar boltinn virðist fara í hönd varnarmanns í vítateig Möltu.  Dómarinn lætur sér fátt um finnast.

55. mín: Eftir aukaspyrnu frá Emil á Heiðar góðan skalla en naumlega framhjá.  Í næstu sókn á eftir er Heiðar enn á ferðinni en skot hans fer yfir eftir góða sókn Íslendinga.

66. mín: MARK! 0-1  Heiðar Helguson hefur komið Íslendingum yfir.  Eftir mikla pressu Íslendinga lenda heimamenn í vandræðum.  Varnarmaður Möltu skallar í átt að eigin marki og Heiðar Helguson er fyrstur að átta sig og kemur boltanum í markið. 

68. mín: Gerðar tvær breytingar á íslenska liðinu.  Útaf koma Aron Einar Gunnarsson og markaskorarinn Heiðar Helguson.  Inn á koma Davíð Þór Viðarsson og Garðar Jóhannsson sem er að leika sinn fyrsta landsleik.  Garðar hefur þá leikið jafnmarga landsleiki og karl faðir hans, Jóhann Hreiðarsson, sem var eitilharður varnarmaður með Þrótti á árum áður.

73. mín: Heldur hefur leikurinn róast eftir markið, ein ástæðan getur verið að skiptingum er farið að fjölga.  Íslendingar voru að gera eina, Indriði Sigurðsson fór útaf og í hans stað kom Bjarni Ólafur Eiríksson.

76. mín: Heimamenn fá hornspyrnu og upp úr henni eiga þeir laust skot að marki sem Árni Gautur handsamar örugglega.

79. mín: Emil Hallfreðsson kemur útaf og í hans stað kemur Guðmundur Steinarsson.

86. mín: Aðeins hefur lifnað yfir leiknum eftir að lítið hafði gerst eftir mark Heiðars á 66. mínútu.  Liðin skiptast á um að sækja án þess þó að skapa sér afgerandi marktækifæri.

88. mín: Heimamenn fá hornspyrnu og eiga skalla sem siglir hratt og örugglega framhjá markinu.

90. mín: Þremur mínútum hefur verið bætt við.

90. mín: Líf og fjör síðustu mínúturnar, eftir atgang í teignum kemur skot að marki sem Árni Gautur ver.  Íslendingar bruna fram og Pálmi á skot rétt framhjá.  Möltumenn fara fram og leikmaður þeirra kemst einn innfyrir en Árni Gautur sá við honum.

90+3 mín: Ítalski dómarinn hefur flautað til leiksloka.  Sanngjarn íslenskur sigur staðreynd.  Íslenska liðið hafði undirtökin mest allan leikinn og fengu nokkur ágætis færi þó svo að dauðafærin hafi ekki verið mörg.  Besta marktækifæri Möltu kom á síðustu mínútu í uppbótartíma en Árni Gautur var vel á verði.

 

Leikskýrsla