• þri. 18. nóv. 2008
  • Landslið

Frábær áskorun að mati landsliðsþjálfarans

Sigurður Ragnar Eyjólfsson
Sigurdur_Ragnar_Eyjolfsson

"Þetta er fyrst og fremst frábær áskorun sem að bíður íslenskra landsliðskvenna.  Ég er viss um að allar okkar fremstu knattspyrnukonur muni leggja sig allar fram til að fá að taka þátt í þessu verkefni" sagði Sigurður Ragnar Eyjólfsson, landsliðsþjálfari, eftir að dregið var í riðla í úrslitakeppni EM 2009.

"Flestir hér eru á því að okkar riðill sé sá sterkasti en verkefnið er frábært.  Við höfum unnið Frakka áður og eigum góða möguleika gegn þeim aftur.  Langt er síðan að við höfum mætt Noregi og ég held að bilið hafi minnkað á milli þjóðanna síðan leikið var síðast" sagði Sigurður Ragnar frá Helsinki.  "Það er svo frábært að fá að mæta Þjóðverjum, núverandi heims- og Evrópumeisturum, og sjá hvar við stöndum gegn þeim allra bestu" segir Sigurður Ragnar Eyjólfsson, landsliðsþjálfari.

Mótherjar Íslands í riðlinum eru á meðal þeirra allra sterkustu í kvennaknattspyrnunni eins og sjá má á síðasta styrkleikalista FIFA kvenna.  Þar eru Þjóðverjar í 2. sæti, Norðmenn í því 6. og Frakkar í 7. sæti.  Þetta eru þrjár af fjórum sterkustu þátttökuþjóðum þessa móts en Svíar eru í 4. sæti styrkleikalistans.