Dregið í EM 2009 í Finnlandi
Þriðjudaginn 18. nóvember verður dregið í riðla í úrslitakeppni EM kvenna sem fram fer í Finnlandi á næsta ári. Tólf þjóðir eru í pottinum og eru Íslendingar í þriðja styrkleikaflokki en þar eru þær þjóðir er tryggðu sér þátttökurétt í gegnum umspil.
Dregið verður kl. 12:00 að íslenskum tíma og verður dregið í Finlandia Hall í Helskini. Þau Sigurður Ragnar Eyjólfsson, landsliðsþjálfari, Katrín Jónsdóttir, fyrirliði landsliðsins og Klara Bjartmarz, skrifstofustjóri KSÍ verða viðstödd dráttinn.
Þetta er í fyrsta skiptið sem 12 þjóðir leika í úrslitakeppninni. Þjóðunum er skipt í þrjá styrkleikaflokka og eru þeir eftirfarandi:
Flokkur 1: Finnland(verða í A riðli), Þýskaland og Svíþjóð
Flokkur 2: Danmörk, England, Frakkland, Noregur
Flokkur 3: Ísland, Ítalía, Rússland, Úkraína og Holland.
Fyrst verður dregið úr fyrsta styrkleikaflokki en þar verða gestgjafar Finna í A riðli. Því næst er dregið úr flokki þrjú og munu tvær þjóðir úr þeim flokki verða í tveimur riðlum. Að lokum er svo dregið úr styrkleikaflokki tvö og verða tvær þjóðir úr þeim flokki í einum riðlinum.
Hægt verður að fylgjast með drættinum á www.uefa.com.
Einnig, sama dag, verður dregið í undankeppni EM 2010 hjá U17 og U19 kvenna sem og í milliriðla hjá U19 kvenna í EM 2009. Ísland verður í hattinum í þessum keppnum. Leikið verður í undankeppni EM 2010 næsta haust en Ísland tryggði sér sæti í milliriðlum hjá U19 kvenna fyrir keppnina 2009 og verður leikið þar í apríl. Dregið verður í þessar keppnir í höfuðstöðvum UEFA í Sviss og verður Ingibjörg Hinriksdóttir, formaður unglinganefndar kvenna, viðstödd dráttinn.