• fim. 30. okt. 2008
  • Landslið

Ísland á EM 2009

Íslensku stelpurnar fagna marki gegn Írum
Alidkv2008-12-037

Í nepjunni í Laugardalnum í kvöld tryggði íslenska kvennalandsliðið sér sæti í úrslitakeppni EM 2009 sem fram fer í Finnlandi. Frábær 3-0 sigur staðreynd og á köldum Laugardalsvelli var stiginn trylltur stríðdans í leikslok.

Íslenska liðið byrjaði leikinn af krafti og fyrstu mínútur leiksins var stanslaus sókn að marki Íra.  Margrét Lára Viðarsdóttir fékk gott færi strax á upphafsmínútunum en markvörður Íra varði glæsilega.  Írska liðið náði svo að komast betur inn í leikinn þegar leið á en íslensku stelpurnar héldu undirtökunum.

Á 23. mínútu fékk Ásta Árnadóttir boltann upp hægri kantinn, sendi boltann fyrir, boltinn fór þar af varnarmanni og út á Dóru Maríu Lárusdóttur sem að skoraði með fallegu skoti yfir markmann Íra.  Staðan orðin góð fyrir íslenska liðið en heldur róaðist leikurinn eftir markið en undirtökin voru ætíð Íslands.

Gestirnir færðu sig nokkuð framar á völlinn í síðari hálfleik en náðu ekki að ógna marki íslenska liðsins að verulegu leyti.  Íslensku stelpurnar voru mun hættulegri fram á við en vantaði nauðsynlega mark til að létta á spennunni.  Það kom á 60. mínútu þegar Dóra María gaf góða sendingu fyrir markið og þar var Margét Lára mætt og skallaði boltann í netið.  Níu mínútum síðar kom þriðja markið og þá snerist dæmið við.  Margrét Lára sendi boltann innfyrir á Dóru Maríu sem afgreiddi boltann glæsilega í netið.  Þar með var nokkuð ljóst að markinu var náð og þegar Christine Beck, þýskur dómari leiksins, flautaði til leiksloka braust út mikill fögnuður á Laugardalsvelli.  

Íslenska liðið var ákaft hyllt af 4.729 áhorfendum sem höfðu verið gríðarlega vel með á nótunum allan leikinn.  Frábært að sjá og heyra stemninguna á vellinum þó svo að kalt hafi verið í veðri.  Ekki síst var magnað að sjá til liðsmanna Tólfunnar sem sungu og skemmtu sér og öðrum allan leikinn og kunni íslenska liðið svo sannarlega að meta þeirra framlag.

Einn merkasti áfangi í íslenskri íþróttasögu í höfn, Ísland er komið í úrslitakeppni EM sem fer fram í Finnlandi á næsta ári.  Fyrir tveimur árum settu þjálfarar og leikmenn sér markmið og það náðist í kvöld.  Frábær stund fyrir alla þá er standa að þessu frábæra liði enda var fögnuðurinn ósvikinn í leikslok.

Til hamingju Ísland!