• sun. 26. okt. 2008
  • Landslið

Jafntefli niðurstaðan í Dublin

Kvennalandslidid_2008
Kvennalandslidid_2008

Jafntefli varð niðurstaðan í fyrir umspilsleik Írlands og Íslands en leikið var í Dublin í dag.  Lokatölur urðu 1-1 eftir að íslenska liðið komst yfir á fyrstu mínútu leiksins og leiddu í hálfleik.  Írar jöfnuðu á 64. mínútu og þar við sat.

Það er því ljóst að úrslitin ráðast á Laugardalsvellinum næstkomandi fimmtudag kl. 18:10.  Þá ræðst það hvort að íslensku stelpurnar tryggi sér sæti í úrslitakeppni EM 2009.  Það er ljóst að stuðningurinn hefur aldrei verið mikilvægari en nú, aldrei hefur verið betri ástæða til að flykkja sér á bakvið íslenskt landslið. 

Miðasala er þegar hafin, miðaverð er 1000 krónur fyrir fullorðna og frítt er fyrir börn 16 ára og yngri.  Sætaval er frjálst.

Fyllum völlinn, ÁFRAM ÍSLAND!

Hér að neðan má sjá textalýsingu af leiknum en fylgst var með hér á síðunni á meðan leik stóð.

Írland - Ísland

Íslenska byrjaði leikinn gegn Írum af krafti í dag en Hólmfríður Magnúsdóttir kom íslenska liðinu yfir strax á 1. mínútu leiksins.  Írska liðið byrjaði með boltann en það íslenska liðið mætti þeim ofarlega á vellinum.  Rakel Hönnudóttir og Margrét Lára Viðarsdóttir pressuðu á varnarmenn Íra og Margrét Lára fékk boltann, kom honum á Hólmfríði sem skoraði af öryggi. 

Aðstæður eru ágætar, um 10 stiga hiti en nokkur vindur. Völlurinn nokkuð blautur, sérstaklega öðru megin, eftir rigningar síðustu daga.

Leikurinn hefur verið jafn og spennandi.  Írar fengu dauðafæri á 13. mínútu komust þá einar innfyrir en María B. Ágústsdóttir varði glæsilega.  Á 21. mínútu átti svo Rakel Hönnudóttir mjög gott skot en boltinn smaug framhjá stönginni.

Margrét Lára fékk þokkalegt færi á 36. mínútu eftir sendingu frá Katrínu Jónsdóttur en markvörður Íra varði.

Ítalski dómarinn hefur flautað til hálfleiks og staðan 0-1 fyrir Ísland.  Írar hafa verið heldur meira með boltann en bæði liðin hafa sótt.  Það er ekkert gefið eftir og harða tæklingar um allan völl.  Enginn leikmaður hefur þó ennþá verið færður til bókar þó svo að dómarinn hafi rætt við nokkra.

Seinni hálfleikur er hafinn og engar breytingar hafa verið gerðar á liðunum.

Hólmfríður Magnúsdóttir fékk áminningu á 53. mínútu og upp úr aukaspyrnunni fengu Írar mjög gott færi en María varð vel.

Írar sækja töluvert meira í upphafi síðari hálfleiks.  Það er farið að rigna og bætt hefur í vindinn og leikur íslenska liðið á móti vindinum.

Írar jöfnuðu metin á 64. mínútu með ágætu marki.  Tveimur mínútum áður fékk Margrét Lára ágætis færi, eftir góðan undirbúning hjá Rakel Hönnudóttir,en skaut framhjá.

Íslenska liðið hefur sótt í sig veðrið eftir jöfnunarmark Íra en leikurinn er í járnum.  Katrín Ómarsdóttir er komin inná í íslenska liðinu og kom hún í stað Hólmfríðar Magnúsdóttur.

María var vel á verði á 75. mínútu þegar hún varði aukaspyrnu Íranna með tilþrifum. 

Þær Hallbera Guðný Gísladóttir og Erla Steina Arnardóttir eru komnar inná í stað Ólínu G. Viðarsdóttur og Rakelar Hönnudóttur.  Ólína varð fyrir einhverjum meiðslum og fór útaf.

Leikskýrsla