Fyllum völlinn - Félög beðin um að hvetja yngri iðkendur til að fjölmenna
Næstkomandi fimmtudag, 30. október, fer fram á Laugardalsvelli mikilvægasti leikur íslensks knattspyrnulandsliðs kvenna frá upphafi.
Kl. 18:10 hefst leikur Íslands og Írlands og laust fyrir kl. 20:00 kemur í ljós hvort íslenska kvennalandsliðið hafi tryggt sér sæti í úrslitakeppni EM 2009. Fyrri leik þjóðanna lauk með jafntefli, 1-1 og því ljóst að sigurvegari leiksins á Laugardalsvelli fer í úrslitakeppnina í Finnlandi á næsta ári.
Þjóðin hefur fylkt sér á bakvið kvennalandsliðið undanfarin misseri og hefur yngri kynslóðin verið þar í lykilhlutverki. Við leitum til aðildarfélaga KSÍ og biðjum ykkur um að hvetja ykkar yngri iðkendur, stráka og stelpur, að fjölmenna á völlinn. Þjálfarar og foreldraráð geta efnt til hópferða á völlinn og byrjað þannig starfið á nýju knattspyrnári á skemmtilegum nótum.
Ef þið hafið áhuga á að efna til hópferðar á völlinn þá vinsamlegast látið okkur vita hversu marga iðkendur yngri flokka þið komið með og við munum afhenda hópnum ásamt fylgdarmönnum fría miða á völlinn. Gaman væri að sjá hópana í bláum lit íslenska landsliðsins eða litum sinna félagsliða á vellinum.
Sendið sem fyrst óskir um miðafjölda, barna og fullorðnismiða, á Þóri Hákonarson framkvæmdastjóra thorir@ksi.is, en hægt verður að sækja þessa miða næstkomandi miðvikudag á skrifstofu KSÍ.
Íslenska kvennalandsliðið þarf á stuðningi okkar allra að halda til að ná settu markmiði. Sýnum samstöðu íslensku þjóðarinnar, fjölmennum á völlinn og tryggjum sæti í úrslitakeppninni í Finnlandi á næsta ári!