• fim. 23. okt. 2008
  • Leyfiskerfi

Samþykkt stjórnar KSÍ varðandi mannvirkjakafla

Hásteinsvöllur að vori
hasteinsvollur

Varðandi samþykkt frá stjórnarfundi KSÍ á miðvikudag og það sem snýr að leyfiskerfinu, sjá nánar hér.  Eftirfarandi var samþykkt á fundinum:

Jafnframt samþykkti stjórn sambandsins að leita samþykktar UEFA við því að lengja aðlögunartíma aðildarfélaga er undirgangast leyfiskerfi KSÍ að mannvirkjaákvæðum kerfisins til ársins 2012 í stað ársins 2010. Í mannvirkjakafla leyfiskerfis KSÍ er kveðið á um lágmarks sætafjölda fyrir áhorfendur og yfirbyggingu á áhorfendastúku.  Þar er veittur möguleiki á undanþágu frá þeim reglum allt til ársins 2010 að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.  Samþykkt stjórnar KSÍ hefur þá þýðingu að möguleiki á undanþágu er framlengdur til upphafs keppnistímabilsins 2012 en með þessu vonast stjórn KSÍ til þess að komið sé til móts við sjónarmið aðildarfélaga KSÍ og sveitarfélaga um að draga úr fjárútlátum til mannvirkjagerðar á meðan óvissuástand ríkir.  Jafnframt vonast stjórn KSÍ að ákvörðun þessi skapi betri möguleika fyrir sveitarfélög til þess að standa enn betur að baki rekstri knattspyrnufélaga í landinu. 

Rétt er að skýrt komi fram að allar forsendur og kröfur í leyfishandbók KSÍ eru þær sömu og áður.  Það eina sem breytist er að lokatímapunkturinn til að ljúka framkvæmdum við aðstöðu áhorfenda og fjölmiðla, þar sem við á, er nú keppnistímabilið 2012, en var áður keppnistímabilið 2010.  Þar sem við á þarf enn að leggja fram áætlun um framkvæmdir og sýna fram á að þeim verði lokið eigi síður en við upphaf keppnistímabilsins 2012.

Þá var einnig ákveðið að framkvæmdastjóri/starfsmaður, skv. forsendu S.02, þarf nú ekki að vera í fullu starfi hjá leyfisumsækjanda.