Dómarinn kemur frá Ítalíu
Kvennalandsliðið undirbýr sig nú af krafti undir umspilsleikina gegn Írum en fyrri leikurinn fer fram í Dublin næstkomandi sunnudag. Liðið heldur utan á fimmtudaginn en seinni leikurinn fer svo fram hér á Laugardalsvelli kl. 18:10, fimmtudaginn 30.október.
Dómarar leiksins í Dublin koma frá Ítalíu, Silvia Tea Spinelli verður með flautuna en henni til aðstoðar verða Cristina Cini og Marinella Caissutti. Fjórði dómarinn kemur frá Írlandi og heitir Paula Brady. Dómaraeftirlitsmaður UEFA verður Englendingurinn Kenneth Ridden en eftirlitsmaður UEFA á leiknum verður Karel Vertongen frá Belgíu.
Leikurinn í Írlandi fer fram á Richmond Park í Dublin en írska liðið St. Patricks Athletic spilar sína heimaleiki á þessum velli í írsku deildinni. Völlurinn tekur 5.500 manns, þar af 2.800 í sæti.