Sætur sigur á Makedóníu
Ísland lagði Makedóníu í kvöld í undankeppni HM 2010. Leikið var á Laugardalsvelli og Veigar Páll Gunnarsson skoraði eina mark leiksins á 16. mínútu leiksins. Íslendingar fór með þessu upp í þriðja sæti riðilsins með jafnmörg stig og Skotar sem eru í öðru sæti.
Íslenska liðið byrjaði af krafti og það skilaði marki þegar Veigar Páll Gunnarsson skoraði eftir aukaspyrnu Eiðs Smára Guðjohnsen. Eftir markið féllu Íslendingar aftar á völlinn og gestirnir sóttu í sig veðrið án þess þó að skapa sér veruleg marktækifæri. Íslenska liðið hélt því til búningherbergja með eins marks forystu þegar tyrkneski dómarinn flautaði til hálfleiks.
Í síðari hálfleik voru það leikmenn Makedóníu sem að sóttu meira en barátta íslenska liðsins var til fyrirmyndar. Besta færi gestanna kom á 76. mínútu en þá náði Indriði Sigurðsson að bjarga á marklínu eftir dauðafæri. Leikmenn Íslands fengu nokkur ágætis tækifæri til þess að sækja hratt en tókst ekki að nýta það sem skyldi. Smám saman fór mesti móðurinn af gestunum og íslenska liðið endaði leikinn með sóma. Leikmenn fögnuðu innilega þegar flautað var til leiksloka og 5.527 áhorfendur héldu glaðir heim með í svölu en fallegu veðri í Laugardalnum.
Íslendingar eru nú komnir með fjögur stig eftir fjóra leiki og eru með jafnmörg stig og Skotar en þeir hafa leikið þrjá leiki. Næsti leikur Íslands í undankeppninni er einmitt gegn Skotum ytra, 1. apríl 2009. Næsti leikur Íslands er hinsvegar vináttulandsleikur við Möltu 19. nóvember en leikið er á Möltu.