Ísland - Makedónía í dag kl. 18:00
Í dag kl. 18:00 hefst leikur Íslands og Makedóníu í undankeppni HM 2010 og er þetta síðasti leikur Íslands í undankeppninni á þessu ári. Aðstæður eru hinar bestu á Laugardalsvelli fyrir leikinn og eru landsmenn hvattir til þess að mæta á völlinn og hvetja íslenska landsliðið sem aldrei fyrr.
Ólafur Jóhannesson, landsliðsþjálfari, hefur tilkynnt byrjunarliðið fyrir leikinn í kvöld og gerir hann eina breytingu frá síðasta leik.
Byrjunarliðið (4-5-1):
Markvörður: Gunnleifur Gunnleifsson
Hægri bakvörður: Grétar Rafn Steinsson
Vinstri bakvörður: Indriði Sigurðsson
Miðverðir: Hermann Hreiðarsson, fyrirliði og Kristján Örn Sigurðsson
Tengiliðir: Brynjar Björn Gunnarsson og Stefán Gíslason
Sóknartengiliður: Eiður Smári Guðjohnsen
Hægri kantur: Birkir Már Sævarsson
Vinstri kantur: Emil Hallfreðsson
Framherji: Veigar Páll Gunnarsson
Þeir sem eru fyrir utan hóp að þessu sinni eru þeir Heiðar Helguson, Guðmundur Steinarsson, Helgi Valur Daníelsson og Davíð Þór Viðarsson.
Hægt er að kaupa miða á netinu á midi.is en miðasala hefst á Laugardalsvelli kl. 12:00 í dag.
Leikurinn hefst stundvíslega kl. 18:00 en áhorfendur eru hvattir til þess að mæta tímanlega og taka vel undir þjóðsöng Íslendinga og gefa þannig tóninn fyrir kvöldið.
Á myndinni er fylgir fréttinni má sjá hluta af öflugri hreyfingu er kallar sig "Tólfan". Þetta er fjörugur hópur ólíkra einstaklinga sem á eitt sameiginlegt, að vilja skemmta sér á landsleikjum. Allir eru velkomnir í þeirra hóp og er hópurinn staðsettur í hólfi I á Laugardalsvellinum.
Hópurinn hittist fyrir leiki á veitingastaðnum Ölveri í Glæsibæ og tæpum klukkutíma fyrir leik, er gengið fylktu liði á Laugardalsvöll. Það geta allir slegist í hópinn. Miðaverð í I hólf er 1.000 krónur og 500 krónur fyrir börn. Það er um að gera að skella sér í hópinn og ekki er verra að mæta í fánalitunum.
Miðaverð á leikdag 15. október
- Sæti í rauðu svæði kr. 2.000
- Sæti í bláu svæði kr. 1.500
- Sæti i grænu svæði kr. 1.000
Miðasala á leikdag hefst á Laugardalsvelli kl. 12:00.
Börn 16 ára og yngri fá miðana með 50% afslætti.
Að kaupum loknum fær kaupandinn sendan e-miða (pdf skjal) í tölvupósti, sem hægt er að prenta út og nota sem aðgöngumiða á völlinn.