Byrjunarlið Íslands tilbúið
Í dag kl. 18:45 hefst leikur Hollands og Íslands í undankeppni HM 2010 og er leikið á De Kuip vellinum í Rotterdam. Leikurinn verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport og hefst útsendingin kl. 18:15.
Ólafur Jóhannesson, landsliðsþjálfari, hefur tilkynnt byrjunarlið sitt fyrir leikinn í kvöld.
Byrjunarliðið (4-5-1):
Markvörður: Gunnleifur Gunnleifsson
Hægri bakvörður: Ragnar Sigurðsson
Vinstri bakvörður: Indriði Sigurðsson
Miðverðir: Hermann Hreiðarsson, fyrirliði og Kristján Örn Sigurðsson
Tengiliðir: Brynjar Björn Gunnarsson og Stefán Gíslason
Sóknartengiliður: Eiður Smári Guðjohnsen
Hægri kantur: Birkir Már Sævarsson
Vinstri kantur: Emil Hallfreðsson
Framherji: Veigar Páll Gunnarsson
Fyrirliðinn, Hermann Hreiðarsson, leikur sinn 80. landsleik í dag. Þrír af fjórum varnarmönnum Íslands sem byrja leikinn eru Sigurðssynir. Þetta gæti valdið erlendum sjónvarpsmönnum einhverjum vandræðum.
Þeir sem ekki verða á skýrslu í dag eru þeir: Grétar Rafn Steinsson, Guðmundur Steinarsson, Heiðar Helguson og Helgi Valur Daníelsson.
Þessar þjóðir hafa mæst 10 sinnum til þessa og hafa Hollendingar haft töluverða yfirburði í þessum viðureignum. Átta sinnum hafa Hollendingar farið með sigur af hólmi en tvisvar hefur niðurstaðan verið jafntefli.
Íslendingar hafa eitt stig eftir tvö leiki í undankeppninni til þessa. Jafntefli varð í leiknum gegn Noregi, 2-2 en Skotar höfðu sigur á Laugardalsvelli, 1-2. Hollendingar hafa leikið einn leik til þessa í riðlinum, sigruðu Makedóníu á útivelli, 1-2.
Íslenski hópurinn kemur svo heim á morgun og hefst þá strax undirbúningur fyrir leikinn gegn Makedóníu á miðvikudaginn. Leikurinn fer fram á Laugardalsvelli og hefst kl. 18:00. Miðasala er í fullum gangi á midi.is og eru landsmenn hvattir til þess að tryggja sér miða í forsölu á mjög hagstæðu verði.